Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1007/1979

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 11. gr. B-liður 2. mgr., sbr. A-liður 15. gr. og E-liður 7. gr.  

Atvinnurekstur - Fyrnanlegt lausafé - Söluhagnaður

Skattstjóri hækkaði tekjur kæranda á skattframtali árið 1977 um helming söluhagnaðar kr. 562.853 vegna sölu á fólksbifreið. Var bifreiðin seld í janúarmánuði 1976 eftir rúmlega tveggja ára eignarhaldstíma. Þá felldi skattstjóri niður gjaldfærða fyrningu fólksbifreiðar að fjárhæð kr. 367.181, er keypt hafði verið í febrúarmánuði 1976. Taldi skattstjóri, að bifreiðin væri ekki notuð til öflunar tekna hjá kæranda og því væri óheimilt að gjaldfæra fyrningu vegna hennar.

Kærandi gerði þær kröfur í málinu, að tap síðustu 5 ára alls að fjárhæð kr. 552.616 ásamt varasjóðstillagi kr. 94.354 yrði dregið frá, áður en til skattlagningar kæmi á ofannefndri tekjuviðbót kr. 930.034. Hann krafðist og þess, að skattlagningu eftirstöðva tekjuviðbótarinnar (söluhagnaðarins) kr. 283.063 yrði frestað í tvö ár eða þar til hann hefði eignast fyrnanlega eign til að afskrifa söluhagnaðinn samkvæmt heimild í 11. mgr. E-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971.

Ríkisskattstjóri féllst á kröfur kæranda.

Í úrskurði ríkisskattanefndar er tekið fram, að fyrir liggi samkvæmt skrásettum gögnum í hlutafélagaskrá, að kærandi hafi verið skráður sem hlutafélag 24. maí 1948. Tilgangur hlutafélagsins hefði verið útgerð til fiskveiða og önnur starfsemi því tilheyrandi og ekki hafi verið síðar tilkynnt um breytingar á tilganginum til hlutafélagaskrárinnar.

Þá segir svo í úrskurði ríkisskattanefndar:

„Af reikningsskilum með skattframtölum kæranda gjaldárin 1974-1977 er ljóst, að hann er þá hættur útgerð til fiskveiða og starfsemi henni tengdri. Verkefni hans þá eru eingöngu fjárávöxtun með bankainnstæðum, og eign í spariskírteinum ríkissjóðs. Þá eru auk þessara eignaliða í efnahagsreikningum kæranda taldar fólksbifreiðar þær, er áður greinir, útistandandi skuldir og sjóðseign sum þessara gjaldára.

Tekjur kæranda nefnd ár voru vaxtatekjur, verðbætur af útleystum ríkisskuldabréfum og söluhagnaður af bifreiðum.

Með því að eigi verður talið, að ávöxtun fjár með þeim hætti, er að framan greinir, falli undir „atvinnurekstur“ í merkingu 2. mgr. B-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971, þykir bera að synja kröfu kæranda skv. fyrri kröfulið kæru hans. Af sömu ástæðu verða margnefndir fólksbílar eigi taldir atvinnurekstrartæki og því ekki til fyrnanlegs lausafjár samkvæmt A.lið 15. gr. laga nr. 68/1971 og fyrning af þeim þess vegna eigi frádráttarbær eftir A-lið 11. gr. sömu laga.

Þykir því bera að breyta framtali kæranda 1977 á þann veg, að fella niður af rekstrarreikningi ársins 1976 gjaldfærslu fyrninga kr. 367.181 af bifreið og frádráttarliðinn tap f.f. ári kr. 36.255, færðan á framtalið. Þá ber einnig að fella niður helming söluhagnaðar kr. 562.853, sem skattstjóri hafði tekjufært á framtalið vegna bifreiðarsölu kæranda.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja