Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 438/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 13. gr. D-liður  

Lífeyrisiðgjöld

Kærandi mótmælti þeirri ákvörðun skattstjóra að fella niður gjaldfærðar iðgjaldagreiðslur á rekstursreikningi árið 1977 að fjárhæð kr. 134.533 í lífeyrissjóð Verkfræðingafélags Íslands vegna eigin lífeyristryggingar og færa umrædda fjárhæð til frádráttar í gjaldahlið framtals. Kærandi, er rak sjálfstæða atvinnustarfsemi og greiddi iðgjöld til umrædds lífeyrissjóðs að öllu leyti sjálfur, færði 60% heildariðgjaldagreiðslna sinna sem hluta atvinnuveitanda til gjalda á rekstursreikningi en 40% til frádráttar í gjaldahlið framtals sem eigið framlag.

Ríkisskattanefnd komst að svofelldri niðurstöðu:

„Með vísan til 1. mgr. D-liðar 13. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um þetta kæruatriði, enda innti kærandi umræddar iðgjaldsgreiðslur af höndum að öllu leyti vegna sjálfs sín.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja