Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 628/1979

Gjaldár 1979, 1978

Lög nr. 68/1971, 13. gr. E-liður og 2. mgr. 16. gr. B-liður 35. gr. reglugerðar nr. 245/1963, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 9/1976  

Námsfrádráttur - Námskostnaður eftir 20 ára aldur - Lögheimili - Kæra ríkisskattstjóra.

Kærð var álagning opinberra gjalda gjaldárin 1977 og 1978. Kæruatriði voru sem hér segir:

1. Gjaldárið 1977. Kærandi krafðist þess, að fullt tillit yrði tekið til námsfrádráttar að fjárhæð kr. 318.000 er kærandi tilfærði á framtali sínu þetta gjaldár vegna náms hans við Aarhus Teknikum árið 1976, er lauk þann 15.10. 1976, en hófst þann 1.11. 1973.

2. Gjaldárið 1978. Kærandi fór fram á, að við álagningu opinberra gjalda þetta gjaldár yrði fullt tillit tekið til kostnaðar við fyrri hluta náms, er stofnað var til eftir 20 ára aldur, eða nánar til tekið náms í rafvirkjun, er lauk þann 25. ágúst 1973 og náms við undirbúnings- og raungreinadeild Tækniskóla Íslands, er hófst þann 1. október 1971 og lauk þann 12. júní 1973. Þá óskaði kærandi sérstaklega eftir því að fullt tillit yrði tekið til námsfrádráttar við álagningu útsvars og vísaði í því sambandi til ljósrits af fundargerð framtalsnefndar X-kaupstaðar frá 15. mars 1978, er fyrir lá í málinu.

Með úrskurði, dags. 4. október 1978, ákvarðaði skattstjóri álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1977. Við þá álagningu tók skattstjóri til greina tilfærðan námsfrádrátt að fjárhæð kr. 318.000. Virtist því kæruatriði þetta hafa verið á misskilningi byggt af hálfu kæranda upphaflega, enda þótt það skipti síðar máli vegna kæru ríkisskattstjóra vegna þessa úrskurðar skattstjóra, sbr. hér að neðan.

Í athugasemdadálki í framtali sínu gjaldárið 1978 tók kærandi fram, að hann ynni að samantekt námskostnaðar, er hann hefði stofnað til eftir 20 ára aldur. Með bréfi, dags. þann 21. apríl 1978, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi útfyllti eyðublöð vegna námskostnaðar. Þann 1. júní 1978 skilaði kærandi útfylltum námskostnaðareyðublöðum fyrir seinni hluta ársins 1973, og árin 1974, 1975 og 1976 og fór þess jafnframt á leit, að skattstjóri mæti námskostnað hans á tímabilinu 18.4. 1971 - 12.6. 1973. Skv. skýrslum kæranda fyrir ofangreind ár námu eftirstöðvar námskostnaðar kr. 1.249.791. Skattstjóri mat eftirstöðvar námskostnaðarins fyrir sama tímabil kr. 1.160.000 og kr. 80.000 fyrir það tímabil er kærandi hafði óskað eftir mati á eða alls kr. 1.240.000. í samræmi við þetta heimilaði skattstjóri til frádráttar gjaldárið 1978 kr. 248.000.

Varðandi gjaldárið 1978 gerði ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Í þessu sambandi skal á það bent að mat skattstjóra á „eftirstöðvum námskostnaðar“ virðist í fullu samræmi við þær reglur sem þar við eiga. Vísast í þessu sambandi til E-liðar 13. gr. laga nr. 68/1971 og 35. gr. reglugerðar nr. 245/1963 með síðari breytingum.“

Viðvíkjandi álagningu tekjuskatts og ákvörðun persónuafsláttar til greiðslu á útsvari gjaldárið 1977 gerði ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu og lagði fram neðangreinda kæru skv. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 68/1971:

„l. Kröfugerð.

Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er tilefnislaus.

2. Kæra ríkisskattstjóra.

Með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 15. gr. laga nr. 7/1972, leggur ríkisskattstjóri fram svofellda kæru:

Krafist er að hnekkt verði þeirri ákvörðun skattstjóra að heimila N.N. skólafrádrátt vegna náms í Danmörku 1976, 318.000 kr., til frádráttar áður en hreinar tekjur hans voru ákvarðaðar.

Það er skoðun ríkisskattstjóra að skattaðilar eigi ekki rétt á slíkum frádrætti þegar þannig stendur á að þeir áttu ekki lögheimili hér á landi þegar á námi þeirra stóð erlendis. Verður að telja það andstætt grundvallarreglum skattalaga að heimila slíkan frádrátt. Eðli sínu skv. á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 8. gr. laga nr. 11/1975, ekki við í slíkum tilvikum. Dvalartími N.N. hér á landi telst frá 28. október til 31. desember 1976 og á þeim tíma stundar hann ekki nám hér á landi.

Samkvæmt þessu er gerð sú krafa að lagður verði tekjuskattur á N.N. gjaldárið 1977 en ákvörðun á persónuafslætti til greiðslu útsvars verði hnekkt.“

Kæranda var sent ljósrit af kröfum og kæru ríkisskattstjóra og gefinn kostur á andsvörum. Greinargerð barst frá kæranda. Taldi kærandi, að skattstjóri hefði ekki tekið tillit til námskostnaðar hans fyrstu 2 ár náms eftir 20 ára aldur. Viðvíkjandi kæru ríkisskattstjóra benti kærandi á, að hann hefði tekið lögheimili hér á landi á árinu 1976 og jafnframt, að honum hefði verið unnt að hafa lögheimili hér á landi allt árið 1976 og stundað samt sem áður nám erlendis hluta ársins án tekna.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Um tl. 1. Kærandi brá lögheimili sínu á Íslandi vegna náms síns í Danmörku. Þann 28.10. 1976 tók kærandi aftur lögheimili hér á landi. Kærandi taldi fram gjaldárið 1977 allar tekjur sínar á árinu 1976. Með hliðsjón af bréfi Fjármálaráðuneytisins frá 23. mars 1973 um skattlagningu íslenskra námsmanna, sem heimilisfastir eru erlendis, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 22/1956, og með vísan til 2. og 9. gr. laga nr. 35/1960 um lögheimili þykir bera að skattleggja kæranda gjaldárið 1977 sem búsettan hérlendis. Er kæru ríkisskattstjóra því hafnað.

Um tl. 2. Skattstjóri mat eftirstöðvar námskostnaðar kæranda eftir viðmiðunartölum ríkisskattstjóra. Með hliðsjón af gögnum málsins og með vísan til E-liðar 13. gr. laga nr. 68/1971 og B-liðar 35. gr. reglugerðar nr. 245 frá 1963 um tekjuskatt og eignarskatt, þykja eigi efni til breytinga á úrskurði skattstjóra og er hann því staðfestur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja