Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 642/1979
Gjaldár 1975, 1976, 1977
Lög nr. 68/1971, 15. gr.
Fyrning - Endurmat
Málavextir voru þeir, að í fyrningaskýrslu með skattframtali kæranda 1975 var m.a. tekinn inn nýr eignaliður: „Vélar og tæki í fasteign 1970-1974 kr. 5.300.000.“ Liður þessi var fyrndur með 17,5% fyrningu eða kr. 927,500. Í efnahagsreikningi kæranda 31/12 1974 var þar eignfærður liðurinn „Vélar og tæki í vinnusölum“ kr. 4.372.500 og höfuðstóll hækkaður um „endurmatshækkun véla 1974“ kr. 5.300.000. í skattframtölum kæranda 1976 og 1977 var þessi eignaliður fyrndur um kr. 927.500 hvort ár.
Með úrskurði hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að heimilaðar yrðu fyrningar á þessum eignalið svo og uppfærslu hans í efnahagsreikningum kæranda skattárin 1974, 1975 og 1976. Úrskurði ríkisskattstjóra skaut kærandi til ríkisskattanefndar.
Ríkisskattanefnd staðfesti úrskurð ríkisskattstjóra með þeim rökum, að ekki væri fyrir hendi heimild í lögum um tekjuskatt og eignarskatt fyrir myndun hins umdeilda eignaliðar og afskrifta af honum.