Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 429/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 68. gr. A-liður — 70. gr. 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml. — 100. gr. 5. mgr. — 121. gr. 3. mgr.   Lög nr. 45/1987 — 1. gr. — 9. gr. 2. og 3. mgr. — 11. gr. — 12. gr.  

Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Ótakmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Lögheimili — Heimilisfesti hluta úr ári — Skattaleg heimilisfesti — Nám — Nám erlendis — Persónuafsláttur — Persónuafsláttur í staðgreiðslu — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars — Álagning — Álagning að liðnu tekjuári — Álagning, almenn — Skattkort — Námsmannaskattkort — Aðalskattkort — Aukaskattkort — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Búferlaflutningur til landsins — Flutningur til landsins

Málavextir eru þeir, að kærandi stundaði nám erlendis. Kom hann til landsins úr námsdvöl þessari um mitt ár 1990. Í kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1991, krafðist umboðsmaður kæranda þess, að honum yrði ákvarðaður persónuafsláttur fyrir allt árið 1990. Með bréfi, dags. 27. september 1991, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar um tekjur hans erlendis á árinu 1990 og staðfestingar um greiðslu skatta af þeim svo og um vottorð skóla um námið. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. október 1991, var getið heildarlauna kæranda hérlendis á árinu 1990 og að hann hefði engar tekjur haft erlendis. Þá fylgdi staðfesting Lánasjóðs íslenskra námsmanna um nám kæranda erlendis. Með kæruúrskurði, dags. 2. desember 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að ekki hefði borist fullnægjandi svar við fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 27. september 1991.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. janúar 1992. Ítrekar umboðsmaðurinn kröfu sína um ákvörðun persónuafsláttar til handa kæranda fyrir allt árið 1990. Í kærunni segir svo: „Gjaldandi stundaði nám erlendis fyrri hluta árs 1990 og er hann kom heim fékk hann úthlutað námsmannaskattkort sem hann nýtti á móti launum ársins 1990. En við álagningu opinberra gjalda í júlí síðastliðnum hefur verið felldur niður persónuafsláttur af námsmannaskattkorti. Skattstjóri sendi fyrirspurnarbréf dags. 27. september 1991 og var því svarað þann 14. október 1991 og hefur skattstjóri ekki tekið það til greina eða þá að svarbréf hafi ekki borist.“ Kæru fylgdi ljósrit námsmannaskattkorts, yfirlýsingu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna og svarbréfi, dags. 14. október 1991.

Með bréfi, dags. 20. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Eftir atvikum er fallist á kröfu kæranda.“

Ekki verður séð, að skattstjóri hafi tekið svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 14. október 1991, til neinnar rökstuddrar úrlausnar og er kæruúrskurði hans, dags. 2. desember 1991, því áfátt að þessu leyti, sbr. 4. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Mál þetta snýst um það, hvort skattleggja beri kæranda svo sem hann hefði verið heimilisfastur hér á landi allt árið 1990. Þegar litið er til skýringa kæranda og framlagðra gagna þykir með vísan til 3. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 5. gr. laga nr. 112/1990, og kröfugerðar ríkisskattstjóra í máli þessu, bera að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja