Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 137/1979
Gjaldár 1974, 1975, 1976
Lög nr. 68/1971, 15. gr.
Fyrningar
Ágreiningur reis um ýmiss atriði varðandi fyrningar olíufélags nokkurs. Þrætuefni voru sem hér segir:
1. Skattstjóri strikaði út verðstuðulsfyrningu mengunarvarnatækja gjaldárið 1976. Kostnaðarverð tækja þessara var kr. 615.620 og fyrning til 31/12 '74 var kr. 267.717. Tæki þessi eyðilögðust í björgunarstarfsemi. Kærandi afskrifaði því tækin að fullu á árinu 1975 eða um kr. 347.903 og reiknaði verðstuðulsfyrningu af þeirri upphæð.
2. Skattstjóri lækkaði verðstuðulsfyrningu vegna afskriftar á innbúi gjaldárið 1976 en kærandi taldi innbú þetta ónýtt og afskrifaði samkvæmt því.
3. Kærandi hafði afskrifað dæluhús og plan gjaldárin 1974, 1975 og 1976 um 8%. Skattstjóri lækkaði afskrift í 5%, þar eð ekki lægi fyrir skipting milli húss og plans.
Kærandi kvaðst ávallt hafa afskrifað eign af þessu tagi um 8% enda væri í öllum tilfellum geymar, leiðslur og dælur, meira en 75% af verðmæti því, sem um ræddi.
4. Skattstjóri lækkaði afskrift á afgreiðsluskúrum úr 20% í 8% gjaldárin 1974-1976. Skattstjóri taldi, að sömu reglur ættu að gilda um þessar eignir og fasteignir. Kærandi rökstuddi kröfu sína með því að skúrar þeir, sem um var deilt, væru lóðarréttindalausir og þess vegna ekki fasteignir og þeir væru yfirleitt endurnýjaðir mjög ört.
5. Skattstjóri gerði þá breytingu á fyrningu bensínstöðva gjaldárin 1974, 1975 og 1976 að lækka fyrningarprósentu á þeirri forsendu, að hús þessi væru úr steinsteypu en ekki timbri. Kærandi mótmælti þessari breytingu þar eð hér væri um misskilning að ræða. Hús þessi væru úr timbri og væri því breyting skattstjóra óréttmæt.
6. Skattstjóri lækkaði fyrningu á heimtaugum gjaldárin 1974, 1975 og 1976 úr 20% í 8% með tilvísun í lið 4.
Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist í málinu, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur að því er snerti þau ágreiningsefni, sem um getur í töluliðum 1,2, 3, 4 og 6 hér að framan. Hins vegar féllst ríkisskattstjóri á, að breytt yrði fyrningarprósentu bensínstöðva í samræmi við vottorð Fasteignamats ríkisins, sbr. tl. 5 hér að framan.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:
„1.-2. Krafa kæranda er tekin til greina með tilvísun í 6. og 7. málsgr. C-liðar 15. gr. laga nr. 68/1971.
3. Með tilliti til samsetningar hinnar umdeildu eignar þykir mega taka kröfu kæranda til greina.
4. Samkvæmt fyrningarskýrslum og eignaskrá, sem er að finna í reikningsskilum kæranda, er endingartími afgreiðsluskúra ekki verulega styttri en fasteigna úr sama efni. Með tilliti til þessa er úrskurður skattstjóra staðfestur.
5. Fyrningu bensínstöðvanna við er breytt til samræmis við vottorð Fasteignamats ríkisins.
6. Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans og 4. lið í úrskurði þessum.“