Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1251/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 15. gr., sbr. E-liður 7.gr.  

Gengistap - Fyrningar - Söluhagnaður

Málavextir voru þeir, að kærandi seldi fiskibát, m/b H., þann 9. október 1975, en bátur þessi var byggður fyrir kæranda í júní 1972.

Gjaldárið 1976 óskaði kærandi eftir frestun á skattlagningu skattskylds hluta söluhagnaðar á grundvelli 11. mgr. E-liðs 1, mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, en 50% taldist til skattskyldra tekna í þessu tilviki. Jafnframt lagði umboðsmaður kæranda fram útreikning á hinum skattskylda hluta söluhagnaðarins, þar sem hann m.a. dró ófyrndar eftirstöðvar gengistapa frá hinum skattskylda hluta söluhagnaðarins, er varð með þessum hætti kr. 1.061.396 lægri en ella. Skattstjóri féllst ekki á þessa útreikningsaðferð umboðsmanns kæranda í kæruúrskurði, dags. þann 15. október 1976, en féllst á umbeðna frestun söluhagnaðarins. Úrskurði skattstjóra var af hálfu kæranda skotið til ríkisskattanefndar, er vísaði kærunni frá með því að ekki þættu efni til að taka afstöðu til kæruatriðis að svo stöddu, þar sem það snerti ekki álögð gjöld kæranda gjaldárið 1976.

Á skattframtali árið 1978 færði kærandi til tekna af hinum umdeilda söluhagnaði kr. 1.155.820, er voru eftirstöðvar af skattskyldum söluhagnaði kr. 1.703.821 samkvæmt útreikningi hans að frádreginni sérstakri fyrningu skv. lokamálsgrein D-liðs 15. gr. laga nr. 68/1971, að fjárhæð kr. 548.001, af t/b J, er keyptur var á árinu 1977. Af hálfu kæranda var byggt á fyrri útreikningi og sjónarmiðum og hinn skattskyldi hluti söluhagnaðarins fundinn þannig, að frá 50% af mismuni söluverðs m/b H kr. 14.000.000 og bókfærðs verðs báts, veiðarfæra og vélar, samtals að fjárhæð kr. 6.046,774, en þessi mismunur nam kr. 3.976.613, dró kærandi ófyrndar eftirstöðvar gengistapa að fjárhæð kr. 2.122.792 og sölulaun kr. 150.000 og fékk þá fram þá fjárhæð skattskylds hluta söluhagnaðar, sem fyrr er nefnd. Skattstjóri taldi sem áður bera að telja gengistöp sem hluta af kostnaðarverði eignar og bæta þeim við bókfært verð hennar, áður en það væri dregið frá söluverði og söluhagnaður fundinn og m.a. til þess vísað, að kærandi hefði fyrnt gengistöpin með sama hundraðshluta og hann notaði við upphaflegt kostnaðarverð bátsins. Hafnaði skattstjóri því kröfu kæranda og taldi skattskyldan hluta söluhagnaðarins nema kr. 2,765.217, er að gjaldfærðri sérstakri fyrningu að fjárhæð kr. 548.001, bæri að telja til tekna gjaldárið 1978 kr. 2.217.216.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var því haldið fram, að í lögum nr. 68/1971, væru gerð greinileg skil milli bókfærðs verðs og gengistapa. Ekki væri minnst á gengistöp í 1. mgr. B-liðs 15 gr. laganna, þar sem heildarfyrningarverð væri skilgreint, en hins vegar mætti skv. 2. mgr. sama stafliðar færa þau sérstaklega til eignar. Skv. 5 mgr. C-liðs 15. gr. laganna mætti fyrna gengistap að fullu annað hvort á eftirstöðvum fyrningartíma hlutaðeigandi eignar eða á 5 árum. Þá var af hálfu kæranda vísað til 5. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 varðandi skilgreiningu hagnaðar af sölu fyrnanlegra eigna. Mætti af þessum lagaákvæðum ljóst vera, að gengistöp bæri ekki að telja til bókfærðs verðs heldur færa þau sérstaklega og kæmu þau síðan að fullu til frádráttar. Ef valin hefði verið 5 ára reglan, hefðu þau ekki blandast inn í söluna og hefði kærandi þá haldið áfram að afskrifa þau næstu ár, uns þau hefðu verið afskrifuð að fullu.

Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Ríkisskattanefnd komst að svofelldri niðurstöðu í málinu:

„Gjaldfærsla ófyrndra eftirstöðva gengistaps með þeim hætti, sem krafist er af hálfu kæranda, þykir ekki eiga stoð í 15. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af gögnum málsins verður ráðið, að kærandi hafi valið að nýta sér þá heimild 15. gr. laga nr. 68/1971, að eignfæra og fyrna gengistap á eftirstöðvum fyrningartíma hlutaðeigandi eignar, sbr. 2. mgr. B-liðs og 5. mgr. C-liðs lagagreinar þessarar. Þykir því bera að staðfesta úrskurð skattstjóra þó með þeirri breytingu, að sölulaun kr. 150.000, er skattstjóri dró að fullu frá skattskyldum hluta söluhagnaðar, þykir bera að draga frá söluverði bátsins og verður skattskyldur hluti söluhagnaðar því kr. 2.840,217.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja