Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1040/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 16. gr. 2. mgr.
Námsfrádráttur - Námskostnaður
Málavextir voru þeir, að kærandi fór til London á árinu 1977 til að sitja námskeið, er gaf réttindi til kennslu á Dale Carnegie námskeiðum Stjórnunarskólans. Með tilvísun til þessa færði kærandi á framtal sitt námskostnað kr. 327.974. Skattstjóri lækkaði tilgreindan frádrátt og heimilaði aðeins þátttökugjald til frádráttar kr. 77.748. Kærandi mótmælti þessu og krafðist þess, að námskostnaður yrði að öllu leyti tekinn til greina. Réttindi þau, er hann hefði aflað sér í fyrrgreindri ferð, hefðu gert honum kleift að afla tekna á þessum vettvangi.
Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem hvorki verður talið að hinn umkrafði frádráttur falli undir A-lið 11. gr. eða C-lið 12. gr. laga nr. 68/1971 né að 2. mgr. 16. gr. sömu laga, sbr. 8. gr. laga nr. 11/1975, og starfsreglur skattyfirvalda heimili frekari frádrátt. Verður ekki séð að unnt sé að fallast á að kæranda beri meiri frádráttur frá skattskyldum tekjum en hann þegar hefur fengið.“
Ríkisskattanefnd tók fram í úrskurði sínum, að frádrátt frá skattskyldum tekjum væri því aðeins heimilt að veita, að til þess væri ótvíræð heimild. Ekki væri að finna í lögum nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, frádráttarheimild, er tæki til þess tilviks, er um ræddi í málinu. Var úrskurður skattstjóra því staðfestur.