Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 437/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður   Reglugerð nr. 79/1988 — 12. gr. — 13. gr. 2. tl.  

Sjómaður — Sjómannaafsláttur — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Sjómaður, vinna í landi í fríum og orlofi — Sjómaður, vinna í landi — Orlof — Orlofsdagar — Ráðningarsamningur

Málavextir eru þeir að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 16. júlí 1990, að vegna starfa kæranda við önnur störf en sjómannsstörf tekjuárið 1989, væri fjöldi daga vegna sjómannaafsláttar á síðara tímabili lækkaður úr 184 tilgreindum dögum í skattframtali kæranda árið 1990 í 139 daga. Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt með kæru til hans, dags. 29. ágúst 1990. Segir í kærunni að vinna í landi hafi verið unnin í venjulegum og eðlilegum frítíma frá sjómannsstörfum og eigi því ekki að raska sjómannaafslætti. Meðfylgjandi kærunni fylgdi staðfesting frá launagreiðanda kæranda um að hann hafi verið fastráðinn starfsmaður á árinu 1989 sem skipverji á X.

Með kæruúrskurði, dags. 28. september 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að skv. fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi unnið í landi við málningarvinnu í 11 vikur tekjuárið 1989. Skattstofan hafi skert sjómannaafslátt kæranda um 45 daga sem væri í raun of lítil skerðing er ætti að vera 72 dagar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. október 1990. Er breytingum skattstjóra mótmælt og vísað til fyrri andmæla kæranda. Segir ennfremur í kærubréfinu, að vinna, sem kærandi hafi unnið í landi, hafi verið ígripavinna og unnin í eðlilegum frítíma frá sjósókn.

Með bréfi, dags. 15. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi hefur ekki mótmælt því að hafa unnið þann tíma við málningarvinnu í landi, sem í málinu greinir. Að því virtu þykja ekki efni til þess að hagga við þeirri lækkun á fjölda sjómennskudaga og þar með fjárhæð sjómannaafsláttar, sem skattstjóri ákvað af þessum sökum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja