Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 258/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 25. gr. C-liður  

Barnabætur

Málavextir voru þeir, að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1978 voru kæranda ákvarðaðar barnabætur með einu barni í stað tveggja, sem að hans áliti voru á fram­færi hans. Skattstjóri synjaði um barnabætur vegna annars barnsins með því að við athugun á breytingaskrá frá Hagstofu Íslands yrði ekki séð, að lögheimili umrædds barns hefði þá verið flutt í L-hrepp.

Kærandi kvaðst hafa flutt lögheimili umrædds barns síns í L-hrepp í marsmánuði 1978 og lagði fram gögn því til sönnunar. Ef eigi yrði fallist á að telja barnið á framfæri hans gjaldárið 1978, var þess krafist af hálfu kæranda, að hinar umdeildu barnabætur yrðu greiddar tilgreindum aðila, eins og áður hefði verið.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur að því er varðaði kæranda sjálfan, en kærunni vísað frá að því leyti sem hún snerti barnabótaákvörðun vegna annarra.

Í niðurstöðu ríkisskattanefndar segir:

„Samkvæmt framlögðum gögnum er dagsetning aðsetursskipta umrædds barns 10. mars 1978. Með því að ekki liggur fyrir í málinu, að umrætt barn hafi verið komið á framfæri kæranda fyrir lok ársins 1977 þykir verða að synja kæranda um barnabætur vegna barns þessa gjaldárið 1978, sbr. 1. mgr. C-liðar 25. gr. laga nr. 68/1971 og er úrskurður skattstjóra staðfestur að niðurstöðu til. Með vísan til 40. gr. laga nr. 68/1971 ber að vísa því kæruatriði frá, er lýtur að ákvörðun opinberra gjalda annarra gjaldenda en kæranda.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja