Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 347/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 25. gr. C-liður  

Barnabætur - Fósturbörn

Kærð var sú ákvörðun skattstjóra að synja kæranda um barnabætur vegna þriggja fósturbarna.

Málavextir voru þeir, að kæranda og eiginkonu hans var falið fóstur þriggja barna af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Eitt barnanna var í fóstri allt árið 1977 eða frá 14. desember 1976, en tvö þeirra frá 16. febrúar 1977. Samkvæmt bréfum barnaverndarnefndar Reykjavíkur var upphaflega um að ræða „fóstur til reynslu í þrjá mánuði, með framtíðarfóstur í huga.“ Þann 20. júní 1977 samþykkti barnaverndarnefnd síðan að fela kæranda og eiginkonu hans framtíðarfóstur barnanna.

Greiðslur frá Reykjavíkurborg vegna barnanna samtals að fjárhæð 1.196.000 færði kærandi til tekna á framtali sínu gjaldárið 1978. Til frádráttar fékk kærandi kr. 976.239, er svaraði til tvöfalds barnalífeyris skv. lögum um almannatryggingar miðað við vistunartíma barnanna hjá kæranda á árinu 1977.

Kærandi taldi sig eiga rétt til barnabóta vegna fósturbarnanna. Skattstjóri rökstuddi synjun sína m.a. svo:

„Varðandi barnabætur, vegna þessara barna, var farið eftir fyrirmælum ríkisskattstjóra, svohljóðandi: sbr. C lið 25. gr. laga nr. 68/1971 með síðari breytingum: „Þeir sem hafa hér umrædd börn á heimili sínu eiga ekki rétt á barnabótum þeirra vegna, þar eð þau teljast ekki á framfæri þeirra heldur á framfæri meðlagsgreiðanda.“ Átt er við börn á einkaheimilum, þar sem ekki er um skylduómaga að ræða, heldur komi greiðslur til frá opinberum aðilum.

Vegna ofanritaðs og sbr. 40. gr. laga nr. 68/1971 virðist skorta lagaheimild til þess að verða við tilmælum yðar um barnabætur.“

Ríkisskattstjóri krafðist þess í málinu, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur.

Ríkisskattanefnd féllst hins vegar á kröfur kæranda með tilvísan til 4. og 13. gr. laga nr. 3, 17. febrúar 1978, um ráðstafanir í efnahagsmálum, er m.a. breytti 1. mgr. C-lið 25. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 11/1975.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja