Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1416/1979
Gjaldár 1977, 1978
Lög nr. 68/1971, 25. gr. C-liður
Barnabætur - Tvísköttunarsamningur
Málavextir voru þeir, að kærandi hafði stundað framhaldsnám í Bandaríkjunum frá 1. júlí 1976. Ekki brá hann lögheimili sínu hér á landi. Skattstjóri tók skattframtal kæranda árið 1977 til endurálagningar með tilliti til tekna hans í Bandaríkjunum. Opinber gjöld kæranda taldi skattstjóri bera að reikna eftir ákvæðum tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. auglýsingu nr. 22 frá 27. nóvember 1975. Skattgjaldstekjur kæranda taldi skattstjóri vera samtals kr. 2.400.389 þar af kr. 1.200.389 hérlendis eða u.þ.b. 50% en 64,83% af tekjum til útsvars. Reiknaði skattstjóri gjöldin eftir þessum hlutföllum. Þá synjaði skattstjóri kæranda um barnabætur gjaldárið 1978 með því að ekki væru uppfyllt skilyrði 1. mgr. C-liðar 25. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, um heimilisfesti barna, þegar virt væru ákvæði A-liðs 2. tl. 3. gr. ofannefnds tvísköttunarsamnings.
Hækkun opinberra gjalda gjaldárið 1977 var andmælt af hálfu kæranda, enda bæri honum ekki að greiða skatta af tekjum sínum í Bandaríkjunum. Þá krafðist kærandi barnabóta vegna 3 barna sinna gjaldárið 1978.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:
„Svo sem gögn málsins liggja fyrir þykir mega taka kröfu kæranda til greina að því er snertir barnabætur gjaldárið 1978, enda verður eigi séð að hann hafi notið barnabóta eða hliðstæðra bóta erlendis. Að öðru leyti er úrskurður skattstjóra staðfestur.“