Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1343/1979

Lög nr. 68/1971, 25. gr. C-liður  

Barnabætur - Einstætt foreldri

Málavextir voru þeir, að kærandi fór fram á, að hann yrði skattlagður sem einstætt foreldri með því að hann hefði son sinn á framfæri sínu. Þessari málaleitan hafði skattstjóri synjað.

Ríkisskattstjóri féllst á, að kærandi yrði skattlagður skv. kröfu hans þar um að því tilskildu, að lögð yrði fram staðfesting yfirvalda á því, að sonur kæranda hefði verið á framfæri hans. Að öðrum kosti var krafist frávísunar. Kæranda var með bréfi ríkisskattanefndar sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og gefinn kostur á að leggja fram umrædda staðfestingu. Kærandi lagði fram staðfestingu oddvita heimilissveitar sinnar þess efnis, að sonur kæranda hefði verið á framfæri hans frá því að kærandi og móðir drengsins, fyrrum sambýliskona kæranda, hefðu slitið samvistum í apríl 1977.

Ríkisskattanefnd tilkynnti móður barnsins um fram komna kröfu kæranda og veitti henni 14 daga frest til þess að koma að athugasemdum og gæta réttar síns, þar eð krafan myndi leiða til lækkunar á fengnum barnabótum, ef hún næði fram að ganga. Konan kvaðst eigi gera athugasemd við væntanlega lækkun barnabóta.

Ríkisskattanefnd tók kröfu kæranda til greina. Jafnframt lækkaði ríkisskattanefnd áður ákvarðaðar barnabætur fyrrum sambýliskonu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja