Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 184/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 37. gr.
Vefenging skattframtals - Upplýsingaskylda bókhaldsskylds skattaðila
Málavextir voru þeir, að þann 20. júní 1978 sendi skattstjóri kæranda, sem rak netagerð, bréf þar sem hann óskaði eftir, að kærandi gæfi skýringar á þremur atriðum varðandi skattframtal hans gjaldárið 1978. Þar á meðal var svohljóðandi:
„Tekjuliðurinn seld vinna og efni óskast sundurliðaður.“
Kærandi svaraði ekki bréfi skattstjóra og voru gjaldstofnar til tekju- og eignarskatts áætlaðir.
Í bréfi, dags. 21. ágúst 1978, krafðist kærandi þess, að skattframtalið yrði tekið til álagningar og áætlun felld niður. Jafnframt var fyrirspurnarbréfi skattstjóra svarað, að öðru leyti en því, að kærandi taldi eigi nægilega ljóst hjá skattstjóra hvað fælist í fyrirspurn hans, þar sem óskað væri eftir sundurliðun á efni og vinnu. Skattstjóri féllst ekki á kröfu kæranda, þar sem hann taldi, að kærandi hefði ekki svarað fyrirspurnarbréfinu með fullnægjandi hætti.
Kærandi krafðist þess í kæru til ríkisskattanefndar, að teknaáætlun skattstjóra yrði úr gildi felld.
Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur, þar sem ekki hefði borist fullnægjandi sundurliðun á seldri vinnu og efni.
Í niðurstöðu ríkisskattanefndar segir svo:
„Fallist er á þær röksemdir kæranda, að fyrirspurn skattstjóra hafi ekki verið nægilega ljós. Eins ber á það að líta, að hafi skattstjóri viljað fá sundurliðun á seldri vinnu og efni til hvers einstaks viðskiptavinar félagsins er sú krafa hans tæpast réttlætanleg. Framtal félagsins og fyrirliggjandi gögn gefa ekki tilefni til slíkrar kröfu, eins og þau hafa verið lögð fram í málinu.“
Féllst ríkisskattanefnd á kröfur kæranda.