Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 596/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 37. gr.  

Vefenging skattframtals - Meðalálagning - Lífeyrir - Bókhald

Tildrög málsins voru þau, að skattstjóri ritaði kæranda fyrirspurnarbréf og óskaði skýringa á lágri meðalálagningu í verslun, er kærandi rak með barnafatnað. Álagning samkvæmt rekstursreikningi verslunarinnar 1977 var 14,2% en var 32,8% árið 1976 og 29,8% árið 1975.

Fyrirspurnarbréfi skattstjóra var ekki svarað þrátt fyrir ítrekun og áætlaði skattstjóri viðbótarsölu kr. 2.000.000.

Í kæru til skattstjóra mótmælti umboðsmaður kæranda viðbótaráætlun skattstjóra og krafðist algjörrar niðurfellingar. Orsök fyrir hinni lágu meðalálagningu hefði verið röng færsla á vörukaupum, stórútsölur á árinu 1977, lítt seljanlegar vörur afskrifaðar og ónákvæmni í vörutalningu.

Skattstjóri taldi skýringar þessar ekki nægilega ljósar og úrskurðaði álögð gjöld óbreytt.

Í kæru til ríkisskattanefndar voru gerðar kröfur ítrekaðar með þeirri viðbótarröksemd, að vörur þær, sem verslunin hefði haft á boðstólum, væru nú í seinni tíð orðnar tískuvörur og hefði kærandi ekki áttað sig á þeirri staðreynd. Hefði þetta leitt af sér tíðar stórútsölur.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Enn verður ekki séð að fram séu komnar nægar skýringar varðandi kæruefnið af kæranda hálfu. Þar sem í ljós virðist leitt að bókhaldi hans hefur verið í verulegum atriðum ábótavant verður að telja að það sé kæranda að sanna og leiða tölfræðileg rök að staðhæfingum sínum.“

Ríkisskattanefnd staðfesti úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans og þeirri athugasemd, að samkvæmt skattframtali kæranda væri lífeyrir hans tortryggilega lágur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja