Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 438/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 32. gr. 2. tl. — 38. gr. 5. tl. Reglugerð nr. 171/1984 — 1. gr. 1. mgr. a) liður 1. — 3. tl. og b) liður 6. tl.
Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrnanleg fasteign — Fasteign — Almenn fyrning — Fyrning, almenn — Fyrningarhlutfall — Atvinnuhúsnæði — Notkun húsnæðis — Skrifstofuhúsnæði — Skrifstofuhald — Arkitekt — Fasteignamat ríkisins — Fasteignamatsskrá — Sérstakur eignarskattur — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — RIS 1983.534 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar — Lögskýring — Sköttunarheimild
I.
Málavextir eru þeir, að í eigu kæranda er eignarhlutur í fasteigninni X. Kærandi fyrndi eign þessa almennri fyrningu og var fyrningarhlutfall 4%, sbr. fyrningarskýrslu árið 1989, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1990. Nam almenn fyrning 265.569 kr.
Hinn 27. júlí 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð, að fyrning vegna X hefði verið lækkuð um 132.785 kr. þ.e.a.s. fyrningarhlutfall lækkað úr 4% í 2%, sbr. a-lið 1. gr. reglugerðar nr. 171/1984, um flokkun bygginga og annarra mannvirkja til fyrninga. Þá hefði aðstöðugjaldsstofn verið leiðréttur í samræmi við þessa breytingu.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 4. ágúst 1990, og því haldið fram, að um ákvörðun fyrningar umræddrar húseignar bæri að fara eftir 6. tl. b) -liðs 1. gr. reglugerðar nr. 171/1984, um flokkun bygginga og annarra mannvirkja til fyrninga. Tók umboðsmaðurinn fram, að sú fyrning (2%), sem skattstjóri teldi rétt að reikna færi eftir 1., 2. eða 3. tl. a) liðs 1. gr. nefndrar reglugerðar. Húsnæði arkitekta félli ekki undir neinn ofangreindra töluliða. Til rökstuðnings þessu sjónarmiði vísaði umboðsmaðurinn til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 583/1983 (sic), þar sem fram kæmi, að slíkt húsnæði, sem hér um ræddi, væri hvorki verslunar- né skrifstofuhúsnæði, og til úrskurðar ríkisskattstjóra 21. mars 1988 (mál 1-1-355), þar sem fjallað væri um sama húsnæði og til umfjöllunar væri í máli þessu.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 15. október 1990, og synjaði kröfu kæranda. Segir svo í kæruúrskurði skattstjóra:
„Við flokkun bygginga í mismunandi fyrningarhlutföll er stuðst við endingargildi eignar miðað við þá starfsemi sem þar fer fram.
Reglugerð nr. 171/1984 um flokkun bygginga og annara mannvirkja til fyrninga skiptist í 5 stafliði, frá a til e. Undir staflið b flokkast verksmiðjubyggingar, verkstæðisbyggingar, vörugeymslur og aðrar byggingar þar sem fram fer starfsemi sem hefur álíka slit á húsnæði í för með sér.
Eignarhluti kæranda í X er í Fasteignamati skilgreindur sem skrifstofuhúsnæði og er nýtt undir sambærilega starfsemi, sem vegna lögskýringarsjónarmiða hefur eigi verið talið falla undir skattlagningu skv. lögum nr. 127/1989.
Enda þótt kærandi sé undanþegin sérstökum eignarskatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði þykir það eitt og sér ekki geta haft mótandi áhrif á fyrningarhlutfall af téðri eign kæranda.“
II.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 22. október 1990. Mótmælir umboðsmaðurinn breytingu skattstjóra og krefst þess, að fyrningarhlutfall standi óbreytt svo sem það var ákveðið í skattskilum kæranda. Vísar umboðsmaðurinn til gagna málsins.
III.
Með bréfi, dags. 17. september 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
IV.
Óumdeilt er, að húsnæði það, sem í málinu greinir, er notað til þeirrar arkitektaþjónustu, sem kærandi rekur. Samkvæmt fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins er þetta húsnæði kæranda skráð sem skrifstofuhús. Kærandi telur, að húsnæði þetta teljist ekki til þeirra flokka mannvirkja, sem tilgreindir eru í 1.-3. tl. a) liðs 1. gr. reglugerðar nr. 171/1984, um flokkun bygginga og annarra mannvirkja til fyrninga, og falla undir 2% fyrningarhlutfall. Til rökstuðnings fyrir þessari kröfu sinni vísar umboðsmaður kæranda til þess, að húsnæði, sem notað hafi verið við starfsemi, hliðstæðri þeirri, sem kærandi rekur, hafi með úrskurði ríkisskattanefndar ekki verið talið falla undir skattlagningu til sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Mun umboðsmaðurinn vera að skírskota til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 534/1983. Úrskurður þessi varðaði skýringu á sköttunarheimild hins sérstaka eignarskatts. Hvorki úrskurður þessi né það sem upplýst er í málinu um umrætt húsnæði og starfsemi kæranda þykja styðja kröfu hans um aðra flokkun húsnæðisins til fyrninga og hærra fyrningarhlutfall en skattstjóri hefur ákveðið. Er kröfu kæranda því synjað.