Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1068/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 41. gr., 40. gr., 37. gr. 1. mgr. 2. málsl.  

Kæruheimild - Leiðrétting skattframtals

Málavextir voru þeir, að skattstjóri lækkaði yfirfæranlegt rekstrartap fyrri ára og hækkaði þar með hreinar tekjur kæranda gjaldárið 1978 um kr. 417.900. Á árinu 1976 hafði skattstjóri lækkað gjaldfærðan ferða- og risnukostnað um kr. 200.000 og bakfært arð kr. 207.900 og ófrádráttarbæra gjöf kr. 10.000. Þessar breytingar leiddu til lækkunar rekstrartaps um kr. 417.900. Gjaldárið 1978 nýtti kærandi sér heimild 1. mgr. B-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971 og dró tap fyrri ára frá skattskyldum tekjum. í samræmi við fyrri afgreiðslu sína lækkaði skattstjóri frádráttarbæra tapsfjárhæð um kr. 417.900.

Af hálfu kæranda var ákvörðun skattstjóra mótmælt sem órökstuddri. Að því er snerti teknaviðbót skattstjóra að fjárhæð kr. 200.000 vegna ferða- og risnukostnaðar var af hálfu kæranda því haldið fram, að þeirri breytingu hefði á sínum tíma verið andmælt, en eigi hefði hún þá verið kærð með því, að hún hefði ekki valdið neinum breytingum á þá álögðum sköttum. Aðrar breytingar, er skattstjóri gerði á framtali gjaldárið 1975 taldi kærandi eigi vera í samræmi við ákvæði 37. gr. laga nr. 68/1971, þar sem þess hefði eigi verið gætt af hálfu skattstjóra að tilkynna kæranda um þær breytingar. Ef eigi yrði fallist á þá kröfu, að ákvörðun skattstjóra um lækkun tapsins yrði hrundið, var af hálfu kæranda áskilinn réttur til þess að leggja 25% teknahækkunarinnar í varasjóð.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að kærunni yrði vísað frá ríkisskattanefnd með því að of seint hefði verið kært til ríkisskattanefndar og skattstjóra. Til rökstuðnings var á það bent, að kærandi hefði ekki notfært sér kærurétt sinn til ríkisskattanefndar vegna úrskurðar skattstjóra frá 10. maí 1976. Yrði þegar af þeirri ástæðu ekki séð, að kærandi gæti í kæru sem varðaði gjald-árið 1978, borið fyrir sig þær málsástæður, sem fram hefðu átt að koma við rekstur kærumáls hans á árinu 1976. Bæri því að vísa málinu frá á þeim grundvelli, að kærandi hefði ekki gætt þeirra réttarfarsúrræða, sem skattalög áskildu honum og ekki notfært sér þær kæruleiðir, sem honum hefðu staðið opnar þegar á árinu 1976. Væru hinar sérstöku kæruleiðir skattalaga opnar þeim aðilum, sem sættu breytingum á skattframtölum að lokinni endurskoðun og rannsókn á þeim skv. 37. gr. skattalaga, eða upptöku skv. 38. gr., sbr. 37. gr. þeirra, óháð því, hvort viðkomandi aðilar bæru opinber gjöld eða ekki að gerðum breytingum skattyfirvalda.

Niðurstaða ríkisskattanefndar var þessi:

„Litið er svo á, að kæruheimild samkvæmt 40. gr. og 41. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, nái aðeins til álagðs skatts, en ekki annarra atriða, er framtal hefur að geyma. Kærandi bar ekki tekjuskatt gjaldárið 1975 og voru því eigi efni til kærumeðferðar þá. Ágreiningsefnið snertir álagðan skatt kæranda gjaldárið 1978 og eru að því leyti skilyrði til þess að taka kæruna til efnisúrlausnar nú fyrir hendi.

Að virtum skýringum kæranda á hinum umþrætta risnu- og ferðakostnaði, er fyrir liggja í gögnum málsins, þykir með vísan til A-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971 mega taka kröfu kæranda til greina að því er þetta kæruatriði varðar. Með skírskotun til 2. málsl. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971, sbr. D-lið 12. gr. og 1. og 8. mgr. 17. gr. s.l. er kröfu kæranda hafnað að því er varðar gjaldfærðan arð að fjárhæð kr. 207.900 og gjöf að fjárhæð kr. 10.000.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja