Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 674/1979
Gjaldár 1977
Lög nr. 68/1971, 37. gr.
Málsmeðferð áfátt
Skattstjóri hækkaði við álagningu tekjur kæranda um kr. 353.031. Kærandi krafðist þess, að tekjuviðbótin yrði felld niður. Var henni mótmælt sem efnislega rangri og að skattstjóri hefði ekki gætt skyldu sinnar um tilkynningu skv. 37. gr. laga nr. 68/1971.
Af hálfu ríkisskattstjóra var fallist á kröfu kæranda.
Skattstjóri gerði m.a. þær breytingar á skattframtalinu, að hann jók við söluhagnað af seldri bifreið áður reiknuðum verðhækkunarfyrningum kr. 321.662. Móti því hækkaði hann sérstaka fyrningu vegna söluhagnaðar gjaldamegin á rekstrarreikningi um sömu fjárhæð. Þá felldi hann niður 6% flýtifyrningu af bifreið þeirri, er í hlut átti kr. 180.000, og lækkaði almenna fyrningu (15%) úr kr. 243.750 í kr. 105.231 og verðstuðulsfyrningu úr kr. 60.938 í kr. 26.307. Eignarverð bifreiðarinnar færði hann til samræmis við þessar breytingar.
Ríkisskattanefnd féllst á það, að tilkynningarskyldu 37. gr. skattalaga hefði ekki verið fullnægt, enda hefði kærandi „nokkurt val um það hvaða eignir hann fyrnti skv. ákvæðum 5. mgr. D-liðs 15. gr. laga nr. 68/1971 og á hvern hátt“ eins og segir í úrskurðinum.