Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1304/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 38. gr., 37. gr.  

Vefenging skattframtals - Framfærslueyrir

Kærð var sú ákvörðun skattstjóra að áætla kæranda viðbótartekjur að fjárhæð kr. 400.000 gjaldárið 1978 á þeim grundvelli, að framfærslueyrir kæranda teldist afbrigðilega lágur.

Málavextir voru þeir, að í framhaldi af athugun á skattframtali kæranda árið 1978 krafði skattstjóri kæranda skýringa með því, að fram hefði komið, að hann hefði haft til framfærslu skv. framtalinu kr. 56.363. Kærandi vísaði í svari sínu til þess, að hann nyti ókeypis fæðis og húsnæðis hjá foreldrum og kostnað vegna bifreiðar bæri hann ekki heldur faðir hans. Skattstjóri féllst ekki á skýringar kæranda, enda hefðu gögn ekki verið lögð fram kröfum til stuðnings.

Kærandi ítrekaði kröfur sínar í kæru til ríkisskattanefndar og lagði fram vottorð frá föður sínum, þar sem staðfest var aðstoð foreldra í formi ókeypis fæðis og húsnæðis og þátttaka í kostnaði við rekstur bifreiðar. Þá lá fyrir í málinu ljósrit af reikningsyfirliti skyldusparnaðarreiknings kæranda fyrir árið 1977, þar sem fram kom, að innstæða án vísitölu þann 1.1. 1977 var kr. 851.616, innlagt á árinu voru kr. 366. 300, úttekið á árinu kr. 454.888, og vísitöluinnstæða í árslok 1977 var kr. 371.160.

Ríkisskattstjóri krafðist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Í A-lið framtals taldi kærandi fram inneign á ávísanareikningi við Landsbanka kr. 371.100, er skattstjóri hefur við útreikning sinn á framfærslueyri kæranda tekið sem ráðstöfun tekna. Fram kemur í gögnum málsins að hér er um að ræða vísitöluinnstæðu á skyldusparnaðarreikningi í árslok 1977. Þá kemur og fram af gögnum málsins, að kærandi fékk útborgað af nefndum skyldusparnaðarreikningi kr. 454.888 á árinu 1977, er skattstjóri hefur ekki tekið tillit til við mat á framfærslueyri kæranda. Með vísan til þessa og með hliðsjón af skýringum kæranda að öðru leyti eru kröfur hans teknar til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja