Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 206/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 37. gr.  

Vefenging skattframtals - Viðhaldskostnaður

Málavextir voru þeir, að skattstjóri sendi kæranda fyrirspurnarbréf, þar sem óskað var eftir ýmsum upplýsingum, er vörðuðu rekstur kæranda árið 1977. Svar barst ekki til skattstjóra innan tilskilins frests og vék skattstjóri framtali til hliðar og áætlaði gjaldstofn til tekjuskatts kr. 62.500.000 og stofn til eignarskatts kr. 137.500.000.

Svar kæranda barst skattstjóra þann 28/7 1978 og var það tekið sem kæra. í úrskurði skattstjóra kom fram, að skattstjóri taldi svar kæranda ófullnægjandi að því er varðaði fyrirspurn um gjaldliðinn, viðhald og rekstur véla og áhalda kr. 28.474.401. M.a. vantaði greinargerð fyrir því í hverju viðhaldið væri fólgið. Eftir atvikum féllst þó skattstjóri á að lækka áætlaðan gjaldstofn til tekjuskatts um kr. 22.500.000.

Í kæru til ríkisskattanefndar kom fram í hverju viðhald var fólgið. Jafnframt var þess krafist, að úrskurði skattstjóra yrði hnekkt og framtalið alfarið lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda.

Af hálfu ríkisskattstjóra var fallist á nokkra lækkun áætlunar en að öðru leyti krafist staðfestingar. Rök ríkisskattstjóra voru svohljóðandi:

„1. Úrskurður skattstjóra byggir á þeirri forsendu að skattstjóri fékk í hendur framtal sem að verulegu leyti var tortryggilegt. Ófullnægjandi skýringar bárust síðan frá kæranda. Vék skattstjóri því réttilega framtalinu til hliðar og áætlaði gjaldstofna.

2. Upplýst er að hluti af vélakosti kæranda var gamall og úr sér genginn þegar hann aflaði sér vélanna. Endurbyggingu á þeim er ekki heimilt að gjaldfæra sem viðhald.

3. Undanfarin ár hefur „viðhalds“kostnaður kæranda verið verulegur. Þar er um að ræða kostnað að því er virðist við sömu vélar og kærandi kveðst nú þurfa að halda við.

4. Nú í kæru til ríkisskattanefndar hafa af kæranda hálfu komið fram nokkur rök fyrir því að að einhverju leyti hafi verið um frádráttarbæran viðhaldskostnað að ræða. Eftir þeim upplýsingum sem nú liggja þannig fyrir þykir mega gera þá athugasemd að fallist er á lækkun áætlunar sem svarar til þess að 40-50% af umræddum kostnaði leyfðist til frádráttar. Að öðru leyti er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Með hliðsjón af fyrningaskýrslu félagsins, greinargerð kæranda og umfangi og eðli rekstrar virðist ekki efni til að vefengja gjaldfært viðhald. Er krafa kæranda tekin til greina og framtal hans gjaldárið 1978 lagt til grundvallar við álagningu gjalda.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja