Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 441/1992

Gjaldár 1990-1991

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 2. tl. 1. mgr. — 69. gr. C-liður   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II.   Lög nr. 79/1989 — Ákvæði til bráðabirgða I.  

Íbúðarhúsnæði — Húsnæðisbætur — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Húsaleigutekjur — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Lögheimili — Vaxtabætur — Vaxtagjöld — Íbúðarlán — Öflun íbúðarhúsnæði — Íbúðarhúsnæði, öflun — Húsnæðisbætur, breyting í vaxtabætur — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar — Forsendur skattstjóra — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið

Málavextir eru þeir, að með bréfi til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1990, fór kærandi m.a. fram á, að honum yrðu úrskurðaðar vaxtabætur í stað húsnæðisbóta, sbr. beiðni hans í athugasemdadálki í skattframtali 1990, þar sem hann sæi fram á mikla vaxtabyrði af húsnæðislánum á næstu árum.

Með bréfi, dags. 5. desember 1990, krafði skattstjóri kæranda um leigusamninga vegna útleigu íbúða kæranda að X og Y og gögn til staðfestingar frádrætti frá tekjum skv. rekstraryfirliti meðfylgjandi skattframtali vegna útleigu íbúðanna á árinu 1989. Jafnframt var kæranda bent á, að réttur til vaxtabóta væri háður því skilyrði, að eigandi nýtti sér íbúðarhúsnæðið til íbúðar sjálfur. Hafi kærandi verið skráð samkvæmt þjóðskrá að A fyrri hluta ársins 1989, en að B síðari hluta ársins. Réttur til vaxtabóta skv. framtöldum vaxtagjöldum í reit 87 í skattframtali væri því ekki fyrir hendi. Var kæranda einnig bent á, að ef hann vildi halda húsnæðisbótum og falla frá kröfu um vaxtabætur skyldi hann leggja fram skriflega kröfu þess efnis.

Með bréfi til skattstjóra, dags. 10. desember 1990, áréttaði kærandi kröfu sína um vaxtabætur og mótmælti því að íbúðir hans væru ekki til eigin nota. Hafi hann búið í íbúð sinni að X til ársins 1987 er hann flutti til Reykjavíkur en þar hafi hann búið í leiguhúsnæði. Íbúðin að X sé með stóra geymslu sem kærandi noti. Ennfremur getur kærandi þess að foreldrar hans og bróðir hafi um tíma dvalið í íbúðinni að Y en þau séu búsett erlendis auk þess sem hann hafi að meira eða minna leyti dvalið þar sjálfur.

Með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1991, féllst skattstjóri á kröfu kæranda um vaxtabætur í stað húsnæðisbóta, en vaxtabætur ákvörðuðust engar, þar sem húsnæði kæranda hefði verið leigt öðrum en ekki verið nýtt til íbúðar af honum sjálfum árið 1989.

Eftir bréfaskipti synjaði skattstjóri kröfu kæranda um vaxtabætur gjaldárið 1991 á sömu forsendum og fyrr er getið, þ.e. að kærandi hafi ekki nýtt íbúðarhúsnæði sitt til eigin íbúðar heldur til útleigu, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 2. desember 1991.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurðum skattstjóra vegna gjaldáranna 1990 og 1991 verið skotið til ríkisskattanefndar með kærum, dags. 6. og 17. desember 1991. Eru í kærunum færðar nánari röksemdir fyrir kröfu kæranda.

Með bréfum, dags. 21. febrúar 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurðir skattstjóra verði staðfestir með vísan til þeirra forsendna er þar koma fram.

Kærandi heldur því fram, að tilfærð vaxtagjöld séu af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota svo sem hann skýrir nánar. Kæranda höfðu verið ákvarðaðar húsnæðisbætur og naut þeirra umrædd gjaldár. Réttur til bóta þeirra var bundinn við eigin not húsnæðis samkvæmt lagareglum um bætur þessar. Kærandi fór fram á breytingu úr húsnæðisbótum í vaxtabætur skv. lagaheimild þar um, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 79/1989. Það þykir ekki fá staðist af skattstjóra að synja kæranda um vaxtabætur á þeim forsendum að ekki teldist vera um íbúðarhúsnæði til eigin nota að ræða hafandi samþykkt húsnæðisbætur kæranda til handa á grundvelli sömu atriða. Að svo vöxnu þykir bera að hnekkja ákvörðun skattstjóra. Eru kæranda ákvarðaðar vaxtabætur á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja