Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 65/1979
Gjaldár 1971
Lög nr. 68/1971, 38. gr. 2. mgr.
Tímatakmörk endurupptöku
Þann 28. maí 1976 fór fram af hálfu skattstjóra álagning á „fasta atvinnustöð“ kæranda, sem var sænskt verktakafyrirtæki „vegna verklegra framkvæmda hér á landi í Straumsvík, Hafnarfirði, á tímabilinu frá 1. júlí 1967 til 31. des. 1970 (31. maí 1970) sem telst vera vegna gjaldársins 1971.“ Voru hreinar tekjur til tekjuskatts og tekjuútsvars ákveðnar kr. 26.122.900 og tekjuskattur kr. 5.276.825 og tekjuútsvar kr. 7.516.100.
Kærandi vildi ekki una þessari álagningu og kærði hana til skattstjóra. Skattstjóri úrskurðaði, að hún skyldi óbreytt standa.
Af hálfu kæranda var úrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar og krafist algerrar niðurfellingar á hinum kærðu gjöldum, en til vara að þau yrðu stórlega lækkuð.
Ríkisskattstjóri krafðist þess aðallega, að málinu yrði vísað frá ríkisskattanefnd, en til vara að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur.
Málavextir voru þeir, að um mitt ár 1967 hóf kærandi ýmsar byggingarframkvæmdir í Straumsvík fyrir Íslenska Álfélagið hf. Hafði hann „lokið umsömdum verkum síðsumars 1969“ að því er sagði í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 26/1 1972. Af sama bréfi og fleiri gögnum í málinu mátti sjá, að lokauppgjör milli aðila hefði farið fram um mánaðamótin febrúar/mars 1970 og lokagreiðsla verið innt af hendi þann 15/4 1970.
Kærandi skilaði skattframtali, dags. 10/7 1970, fyrir verkin ásamt rekstrarreikningi, er sýndi hreinar tekjur kr. 11.065.841. Reikningur þessi var talinn taka yfir tímabilið frá 1. júlí 1967 til 31. maí 1970. Hinn 2. október 1970 krafði skattstjóri kæranda skriflega um ýmsar upplýsingar í sambandi við verkin. Svarbréf kæranda var dags. 23. júní 1971 og fylgdi því m.a. nýr rekstrarreikningur talinn ná yfir tímabilið 1. júlí 1967 til 31. des. 1970 og sýndi hann rekstrarhagnað kr. 46.560. Álagninguna þann 28. maí 1976 byggði skattstjóri á siðar nefnda reikningnum með þeirri breytingu, að hann synjaði um frádrátt á kr. 169.864, sem kærandi gjaldfærði til að mæta óframkomnum kostnaði, er ekki virtist umdeilt í málinu. Auk þess synjaði skattstjóri um frádrátt á vöxtum kr. 25.906.536.
Aðalkröfu sína í málinu um frávísun studdi ríkisskattstjóri þeim rökum, að samkvæmt síðasta málslið 1. mgr. 42. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 16. gr. laga nr. 7/1972 hefði hann á hendi „framkvæmd tvísköttunarsamninga“ við önnur ríki. Samkvæmt því væri ríkisskattstjóri „viðkomandi yfirvald“, samanber 24. gr. samnings Íslands Við Svíþjóð til þess að koma í veg fyrir tvísköttun tekna og eigna. Kröfur gjaldanda væru líka þess efnis, að þær féllu undir ákvæði 21. gr. greinds samnings. Kærandi krafðist efnisúrskurðar í málinu.
Um frávísunarkröfu ríkisskattstjóra segir svo í úrskurði ríkisskattanefndar:
„Eins og áður er rakið fór frumálagning hinna kærðu gjalda fram af hálfu skattstjóra þann 28.5. 1976. Í máli þessu er fjallað um staðfestingarúrskurð sama skattstjóra frá 29.3. 1977 á álagningunni. Ekki verður séð af framlögðum gögnum, að bornar séu brigður á hæfi skattstjóra til þessara aðgerða né rétt kæranda til að leita úrskurðar hans eftir 40. gr. laga nr. 68/1971. Þvert á móti sýnist hinu gagnstæða haldið fram. Af 21. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Svíþjóðar verður ekki ráðið, að hún svipti gjaldþegn kærurétti eftir 41. gr. laga nr. 68/1971 í tilviki sem þessu. Heldur sýnist þar um að ræða kæruleið, sem komi til viðbótar hinum almenna kærurétti eins og hann er ákveðinn í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Er því kröfu ríkisskattstjóra um frávísun málsins hrundið.“
Til rökstuðnings aðalkröfu sinni um niðurfellingu hinna kærðu gjalda benti umboðsmaður kæranda á, að hin kærða álagning hefði verið of seint gerð og óheimil að lögum, samanber 38. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 68/1971 með áorðnum breytingum. Samkvæmt þessari lagagrein væri ekki heimilt að reikna skatt gjaldanda að nýju lengra aftur í tímann en 6 ár. Í þessu tilviki hefði alls enginn skattur verið á kæranda lagður í nærri 7 ár frá því hann hætti allri starfsemi hér á landi, sem verið hefði um mitt ár 1969. Því til stuðnings benti hann á gögn, sem lægju fyrir í málinu og sönnuðu ótvírætt að allri starfseminni hér á landi hefði lokið á þessum tíma, sbr. m.a. bréf Ísal til skattstjóra Reykjanesumdæmis dags. 26. janúar 1972. Ennfremur að allar vélar kæranda hér á landi hefðu ýmist verið seldar íslenskum aðilum eða sendar til Svíþjóðar aftur. Öllum launagreiðslum hefði löngu verið lokið og yfirhöfuð öll starfsemi félagsins hér á landi niður lögð.
Af hálfu ríkisskattstjóra var á það bent, að samkv. ákvæðum 38. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt væri upptökuheimild á þegar álögðum sköttum takmörkuð við 6 ár. Sá skilningur hefði verið lagður í umrædda lagagrein, að upptökuheimildin takmarkaðist við sex tekjuár eða almanaksár, talið frá byrjun þess árs þegar endurálagning fer fram hjá skattstjóra, samanber hæstaréttardóma á bls. 993 og 1002 1975. Þannig hefði verið heimilt á árinu 1976 að taka upp gjöld skv. skattskýrslu gjaldársins 1971. Hinn 17. október 1972 hefði kærandi afhent skattstjóra skattskýrslu gjaldársins 1971, áritaða af tveim prókúruhöfum kæranda. Hefði skýrsla þessi byggst á rekstrarreikningi kæranda vegna framkvæmda í Straumsvík 1. júlí 1967 til 31. des. 1970. Þá var vísað til bréfs skattstjóra, dags. 28. maí 1976, þar sem segði, að á tímabilinu 1. júlí 1967 til 31. maí 1970 hefði gjaldandi (kærandi) haft með höndum verklegar framkvæmdir fyrir Íslenska Álfélagið hf. í Straumsvík. Gjaldandi hefði fengið heimild til að telja fram til tekjuskatts í einu lagi fyrir umrætt tímabil, þegar framkvæmdum hefði verið lokið. Síðan væru í úrskurðinum rakin þau atvik, sem vörðuðu skil kæranda á ýmsum gögnum og upplýsingum og þann drátt, sem á varð af hans hendi að fullnægja skilaskyldu sinni til að unnt yrði að ákvarða honum opinber gjöld vegna þeirra tekna, sem hann hefði haft af hinni föstu atvinnustöð sinni hér á landi. Umboðsmaður kæranda hefði lagt fram óstaðfest ljósrit af skjölum, sem tjáðust varða rekstur kæranda hér á landi umrædd ár. Virtist mega af þeim gögnum ráða, að kærandi hefði selt einhvern hluta vélakosts síns hér á landi á árunum 1968 og 1969. Jafnframt mætti lesa út úr gögnum þessum, að kærandi hefði á árinu 1969 flutt vélar úr landi. Ekki yrði séð, að umrædd sala og flutningur áhalda breytti nokkru um þá staðreynd, að kærandi hefði haft tekjur af hinni föstu starfstöð á Íslandi fram á árið 1970 og miðaði hann uppgjör rekstrar síns við áramót 1970/1971. Yrði því að telja, að þau óstaðfestu ljósrit, sem lögð hafi verið fram um vélaflutninginn og sölur væru sýnilega þýðingarlaus fyrir niðurstöðu þessa skattamáls. Af hálfu skattstjóra hefði að fullu verið gætt þeirra formskilyrða, sem sett væru fyrir skattákvörðunum. Með úrskurði, dags. 28. maí 1976, hefði verið rofinn sá frestur, sem skattstjórum væri ákveðinn til upptöku mála samkv. 38. gr., sbr. og 18. gr. nefndra laga.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo um efnisniðurstöðu:
„Af gögnum málsins kemur m.a. fram í áður greindu bréfi Íslenska Álfélagsins hf. frá 26.1. 1972, að kærandi hafði lokið umsömdum verkum síðsumars 1969. Í bréfi kæranda til skattstjóra dags. 16. apríl 1969 segir svo: „Varðandi greiðslur á sköttum vísum vér til aðalskrifstofu vorrar í Stokkhólmi, Direktör N.N.
Skrifstofa vor í Straumsvík verður lögð niður f.o.m. 1. maí 1969.“
Ennfremur kemur fram af gögnum í málinu, að síðustu vinnulaun eru greidd þann 3.4. 1969, pósthólfum kæranda í Reykjavík og Hafnarfirði sagt upp 18.6. 1979, sölusamningar um vélar og tæki til tveggja íslenskra kaupenda, V. hf. og M. hf., eru dags. 13. mars 1969 og 18. apríl 1969. Flutningur þeirra véla og tækja, sem endursend voru til Svíþjóðar sýnist hafa átt sér stað á tímabilinu nóvember 1968 - febr. 1969. Og í álagningarbréfinu frá 28/5 1976 er svofelld athugasemd: „Í fyrra framtali sínu, dags. 10. júlí 1970, fer gjaldandi fram á frádrátt vegna auka afskrifta 1.380.128 kr. skv., að því er virðist, 2. gr. laga nr. 48/1970. Þar sem álíta verður að fyrnanlegar eignir gjaldanda hafi eigi verið fyrir hendi hér á landi í árslok 1969 verður að synja gjaldanda um þennan frádrátt.“ Þegar á allt þetta er litið ber að leggja til grundvallar, að hin „fasta atvinnustöð“ kæranda hér á landi hafi verið niður lögð á skattárinu 1969, sbr. í því sambandi 6. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Svíþjóðar. Með því lauk skattskyldri starfsemi kæranda og skattskyldu hans hér á landi. Skatttekjur þær, sem um er deilt í málinu eru allar sprottnar af þessari starfsemi. Eins og verktöku kæranda virðist háttað var honum rétt að gera upp tekjur af henni við verkalok eða á skattárinu 1969. Þurfti hann ekki til þess neitt sérstakt leyfi. Kærandi taldi fram til skattstjóra gjaldárið 1970, að vísu of seint, en engu að síður bar skattstjóra að fara með málið eftir ákvæðum 37. gr. sbr. 47. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eins og við átti. Ekki þykir skipta máli í þessu sambandi, þótt lokauppgjör milli verkkaupa og verksala færi eigi fram fyrr en á öndverðu árinu 1970. Eftir 2. mgr. 18. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt var því kæranda rétt að telja verkkaupið til tekna með tekjum skattársins 1969 sem og kærandi gerði. Að þessu athuguðu þykir bera að miða upphaf fyrningarfrests eftir 61. gr. laga nr. 51/1964 sbr. 5. gr. laga nr. 67/1965 og 2. mgr. 38. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt við lok skattársins 1969. Var skattstjóra heimilt að framkvæma álagningu á næstu sex árum eða til ársloka 1975, sjá nánar um skýringu á 38. gr. í hrd. XLIII bls. 620 sbr. og hrd. XLVI bls. 993 og 1002. Frestur þessi var því liðinn er hin umdeilda álagning fór fram hinn 28. maí 1976.
Með tilvísun til þess, sem rakið er hér að framan ber að taka aðalkröfu kæranda til greina.“