Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 120/1979

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 40. gr.  

Kærufrestur til skattstjóra

Deilt var m.a. um það, hvort kæra hefði borist skattstjóra innan lögmælts kærufrests.

Málavextir voru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts og sætti því áætlun skattstjóra. Skattframtal kæranda barst síðan skattstjóra sem kæra. Þeirri kæru vísaði skattstjóri frá með því að kærufrestur hefði runnið út hinn 29.8. 1977, en skattframtalið hefði verið póstlagt 30.8. 1977 og móttekið hjá skattstjóra 1.9. 1977. Kærandi gerði grein fyrir því í kæru til ríkisskattanefndar, að kæran hefði verið sett í pósthólf í pósthúsi í því kauptúni, er kærandi átti heimilisfang að kvöldi 29. ágúst 1977, í ábyrgðarbréfi til skattstjóra, er sat í öðru kauptúni í umdæminu. Hefði kæran verið bókuð á pósthúsinu sem ábyrgðarbréf þann 30. ágúst 1977 og borist skattstjóra þann 1. september 1977.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að frávísunarúrskurður skattstjóra yrði staðfestur.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo um þetta ágreiningsefni:

„Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt getur sá, sem telur skatt sinn eigi rétt ákveðinn, sent skriflega kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til skattstjóra eða umboðsmanns hans innan 14 daga frá því er skattskrá er lögð fram eða póstlögð var tilkynning um skattbreytingu. Skýring þessarar greinar eðli málsins samkvæmt og í samræmi við meginreglu laga þykir leiða til þess að eigi beri að telja framlagningardag skattskrár með kærufresti.

Skattskrá í -------umdæmi 1977 var lögð fram þann 16. ágúst 1977 og rann kærufrestur til skattstjóra því út þann 30. ágúst 1977, en þann dag var framtal kæranda póstlagt. Skattstjóri byggði frávísunarúrskurð sinn því ranglega á því, að kæra væri of seint fram komin.

Eftir þessari niðurstöðu verður kæran tekin til efnislegrar úrlausnar fyrir ríkisskattanefnd.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja