Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 653/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 41. gr.
Valdsvið ríkisskattanefndar - Kæruheimild ríkisskattstjóra
Kærður var til lækkunar sérstakur skattur af atvinnurekstri, sem lagður var á kæranda samkvæmt lögum nr. 121/1978 sbr. bráðabirgðalög nr. 96/1978, um kjaramál. Umboðsmaður kæranda krafðist þess, að viðmiðunartekjur, er skattstjóri lagði til grundvallar við álagningu yrðu hækkaðar um kr. 800.000. Kærandi reiknaði eiginkonu sinni kr. 800.000 í laun úr atvinnurekstri sínum. Skattstjóri taldi reiknuð laun eiginkonu hluta af hreinum tekjum af sameiginlegum rekstri hjóna og tók ekki tillit til reiknaðra launa eiginkonu við álagningu.
Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar athugasemdir:
„Fallist er á hækkun reiknaðra launa um kr. 800.000 og þess er krafist að launaskattsstofn og slysatryggingagjaldsvikur hækki samsvarandi og reiknuð laun eiginkonu hækka.“
Ríkisskattanefnd féllst á kröfu kæranda um lækkun stofns til álagningar sérstaks skatts af atvinnurekstri sökum hækkunar á reiknuðum launum til frádráttar hreinum tekjum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 121/1978, um kjaramál. Hins vegar vísaði ríkisskattanefnd frá þeirri kröfu ríkisskattstjóra, er laut að breytingu á áður álögðum launaskatti og slysatryggingariðgjaldi. Forsendur þeirrar niðurstöðu voru þær, að kærumálið varðaði eingöngu álagningu gjalda samkvæmt bráðabirgðalögum nr. 96/1978, um kjaramál, sbr. lög nr. 121/1978, um kjaramál og ákvæði 11. gr. laganna gerði ekki ráð fyrir því að áður álögðum gjöldum yrði breytt með þessum hætti við meðferð kærumála samkvæmt nefndum lögum fyrir ríkisskattanefnd í tilefni af niðurstöðu slíkra mála.