Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 669/1979

Gjaldár 1970-1973

Lög nr. 68/1971, 41. gr.  

Endurupptaka ríkisskattanefndar

Málavextir voru þeir, að ríkisskattstjóri ákvarðaði kæranda opinber gjöld að nýju gjaldárin 1970-1973 að undangenginni rannsókn rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á bókhaldi og framtalsgögnum kæranda. Var skattframtölunum vikið til hliðar og kæranda áætlaðar hreinar tekjur þessi ár. Ríkisskattanefnd taldi að þeir annmarkar, sem komið hefðu í ljós á bókhaldi kæranda, væru ekki það verulegir, að tilefni gætu gefið til þess að víkja skattframtölum kæranda til hliðar. Hins vegar hefðu verið efni til þess að taka skattframtöl kæranda til endurálagningar í tilefni þeirra upplýsinga, sem fram hefðu komið við athugunina.

Í málinu krafðist kærandi leiðréttinga og endurskoðunar á nokkrum atriðum, sem hann kvað skattstjóra ekki hafa lagfært þrátt fyrir kærur gjaldárin 1970 og 1973. Var hér um að ræða tiltekna kostnaðarliði. Ríkisskattanefnd hafði með úrskurði á árinu 1972 staðfest efnisúrskurð skattstjóra að því er snerti kæruefni gjaldárið 1970. Taldi ríkisskattanefnd þau kæruefni eigi geta komið til álita í endurupptökumálinu, enda hefði ekkert nýtt fram komið, er gæti gefið tilefni til breytinga á fyrri ákvörðun. Kæruatriðum þeim, sem vörðuðu gjaldárið 1973, hafði skattstjóri vísað frá með úrskurði í nóvember 1973 á þeim forsendum, að kæra hefði verið of seint fram komin. Ríkisskattanefnd staðfesti frávísunarúrskurð skattstjóra í september 1974. Með tilliti til þess, að eigi var felldur efnisúrskurður á sínum tíma um þessi kæruatriði, taldi ríkisskattanefnd, að þau gætu komið til álita í kærumálinu við endurmat álagningargrundvallar í sambandi við endurupptöku álagðra gjalda umrætt gjaldár, eftir því sem efni stæðu til.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja