Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 667/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 41. gr.  

Kæruheimild - Launaskattur - Frávísun

Krafist var m.a. niðurfellingar álagðs launaskatts að fjárhæð kr. 4.516, slysatryggingagjalds atvinnurekenda samkv. 36. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, að fjárhæð kr. 200 og lífeyristryggingagjalds atvinnurekenda samkvæmt 25. gr. s.l. að fjárhæð kr. 2.200. Gjöld þessi voru lögð á kæranda vegna „Svæðisrannsóknar í Hvalfirði“, er kærandi hafði umsjón með og styrkt var af Vísindasjóði. Greidd laun vegna rannsóknar þessarar árið 1977 námu kr. 129.038 samkvæmt rekstraryfirliti kæranda. Af hálfu kæranda var því mótmælt, að umrædd starfsemi gæti verið gjaldskyld til álagningar launaskatts og atvinnurekendaiðgjalda. Þá benti kærandi á, að í hinum kærða úrskurði skattstjóra væri vísað til sérstaks úrskurðar um launatengd gjöld, en sá úrskurður ekki verið kunngerður honum.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo um þetta kæruatriði:

„Með kæru til skattstjóra, dags. 4. ágúst 1978, fór kærandi fram á niðurfellingu álagðs launaskatts og atvinnurekendaiðgjalda. Í úrskurði skattstjóra, dags. 15. nóvember 1978, er að því er þetta kæruatriði varðar vísað til sérstaks úrskurðar um launatengd gjöld. Skattstjóri hefur eigi enn fellt úrskurð um kæruatriði þetta. Brestur því heimild til að taka kæruefnið til efnislegrar meðferðar og er því vikið frá að svo stöddu.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja