Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 449/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður   Reglugerð nr. 79/1988 — 12. gr. — 13. gr. 1. tl. — 14. gr.  

Sjómaður — Sjómannaafsláttur — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Lögskráning — Lögskráningardagar — Ráðningarsamningur — Ráðningartími — Atvinnuleysisbætur — Orlof — Orlofsdagar — Frídagar án launa — Vanreifun — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar

Málavextir eru þeir, að í reiti 61 og 63 í skattframtali sínu árið 1990 færði kærandi daga við sjómannsstörf á árinu 1989, 141 dag tímabilið 1. janúar 1989 til 30. júní 1989 og 127 daga tímabilið 1. júlí 1989 til 31. desember 1989. Var þetta í samræmi við kaupuppgjöf vinnuveitanda kæranda, X. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 var fjárhæð sjómannaafsláttar byggð á dagafjölda þessum.

Næst gerðist það í málinu, að kærandi sendi skattstjóra greinargerð um sjómannaafslátt (RSK 3.13), dags. 29. ágúst 1990, þar sem dagar við sjómannsstörf voru taldir 181 fyrri helming ársins 1989 og 184 seinni helming þess. Í greinargerð þessari tók kærandi fram, að hann stundaði sjómennsku allt árið og hefði engar aðrar tekjur en vegna sjómennsku, enda væri hann ráðinn sem sjómaður allt árið. Aðrir dagar en lögskráðir dagar á ráðningartíma væru vegna veikinda, orlofs eða annarra samningsbundinna atriða. Í bréfi, sem fylgdi greinargerð þessari, gat kærandi þess, að láðst hefði vegna mistaka að senda gagn þetta með skattframtali. Hinn 19. október 1990 felldi skattstjóri kæruúrskurð í málinu og synjaði kæranda um frekari sjómannaafslátt en ákvarðaður hafði verið við álagningu. Vísaði skattstjóri til ákvæða 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt, þar sem fram kæmi, að sjómannaafsláttur miðaðist við hvern dag, sem maður teldist stunda sjómannsstörf. Sama ætti við um þá daga, sem sjómaður fengi greiðslur hjá útgerðinni í orlofi eða veikindum. Frídagar án launa teldust ekki með í þessu sambandi. Samkvæmt upplýsingum útgerðarinnar hefði kærandi verið lögskráður við sjómannsstörf 141 dag fyrri helming ársins 1989 og 127 daga seinni helming þess.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. nóvember 1990, og er krafa kæranda sú, að honum verði ákveðinn sjómannaafsláttur fyrir allt árið 1989. Gerir kærandi grein fyrir öðrum dögum en lögskráningardögum og úthaldi Y á árinu 1989, en skipið hafði sóknarmark þetta ár. Kom fram, að það hefði haft heimild til að stunda veiðar alls 239 daga á árinu 1989. Þá lýsti kærandi því, hvernig frídögum og orlofi væri háttað. Kom m.a. fram, að stoppdagar vegna sóknarmarksins væru teknir á þann hátt, að innivera eftir hverja veiðiferð væri lengri en kjarasamningar kvæðu á um, að væri lágmark. Jafnframt lengri hafnarfríum væru skipverjar oftast afskráðir, þegar þannig stæði á. Kærandi tók fram, að hann væri bundinn ráðningu allt árið 1989 og hefði engin önnur laun haft en af sjómennsku og því væri ekki um launalaust leyfi að ræða í skilningi skattalaganna. Með kærunni fylgdi staðfesting X, dags. 30. október 1990, þess efnis, að kærandi hefði verið fastráðinn á Y allt árið 1989 og því bundinn skipinu þann tíma og ekki unnið aðra vinnu. Teldist hann því hafa stundað sjómannsstörf allt árið 1989.

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Krafa kæranda er sú, að honum verði ákvarðaður sjómannaafsláttur fyrir allt árið 1989 og styður kærandi þessa kröfu sína m.a. við staðfestingu útgerðarinnar, sem fyrir liggur í málinu. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið atvinnuleysisbætur 40.122 kr. á árinu 1989, er hann hefur tekjufært í skattframtali sínu. Í ljósi þessa þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á, að honum beri réttur til sjómannaafsláttar allt árið 1989. Þá hefur kærandi ekki gert fullnægjandi grein fyrir því, að honum beri hærri sjómannaafsláttur en skattstjóri hefur ákveðið. Að svo vöxnu þykir verða að vísa kærunni frá vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja