Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 435/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 47. gr. 8. mgr.  

Viðurlög

Kærð var sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1978 að hækka tekjur um kr. 360.000 vegna einkanota af bifreið í eigu hlutafélags nokkurs, sem kærandi var aðalhluthafi í og veitti framkvæmdastjórn. Kærandi hafði ekki tilfært neinar tekjur í skattframtali sínu vegna hlunninda þessara. Kærandi krafðist þess, að fjárhæð hlunnindanna yrði lækkuð í kr. 180.000. Færði kærandi fram ýmiss rök fyrir lækkunarkröfu sinni.

Ríkisskattstjóri gerði svofellda kröfu í málinu:

„Með vísan til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 273 frá 17. apríl sl. (þ.e. 1978 innsk.) í sambærilegu máli kæranda er fallist á nokkra lækkun hlunnindamats. Þess er þó krafist að við áætlun verði tekið tillit til refsiviðurlaga skv. ákvæðum 47. gr. skattalaga. En kæranda hlýtur að mega vera það ljóst að hlunnindi sem þau er hann hefur af bifreiðanotkun eru framtals- og skattskyld.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Skattskyld bifreiðahlunnindi kæranda þykja hæfilega ákveðin kr. 180.000. Eins og atvikum er háttað í máli þessu, m.a. vegna þess að sambærilegt ágreiningsefni gjaldárið 1977 var til lykta leitt með úrskurði ríkisskattanefndar eftir að kærandi skilaði skattframtali sínu gjaldárið 1978, þykir eigi öruggt að beita beri viðurlögum skv. 47. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja