Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1027/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 47. gr.  

Framtalsfrestur - Viðurlög

Málavextir voru þeir, að þann 6. júní 1978 barst skattstjóra skattframtal kæranda. Skattstjóri ritaði kæranda bréf þann 20. júní 1978, þar sem gerðar voru athugasemdir við og óskað nánari skýringa á ýmsum atriðum í ársreikningi kæranda. Er svar barst ekki, tilkynnti skattstjóri kæranda þann 4. júlí 1978, að skattframtal hans hefði verið lagt til hliðar sem ófullnægjandi og honum því áætlaðir gjaldstofnar. Með bréfi, dags. þann 10. ágúst 1978, gaf kærandi skýringar og svör við athugasemdum skattstjóra. Að virtum skýringum kæranda og gerðum nokkrum breytingum á skattframtali hans lagði skattstjóri það til grundvallar álagningu í stað fyrri áætlunar með 15% viðurlögum á gjaldstofna skv. 6. mgr. 47. gr. laga nr. 68/1971, að undanskildu gjaldfærðu gengis-tapi kr. 1.326.617, er skattstjóri bakfærði með 25% viðurlögum með skírskotun til 2. mgr. 47. gr. laga nr. 68/1971.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að viðurlög yrðu niður felld með því að engar upplýsingar hefði skort varðandi tekjuhlið framtals. Gengismun kvað kærandi hafa myndast á s.l. 4 árum, en hefði ekki verið færður upp, fyrr en nú, er kærandi hefði talið sér það heimilt með því að um 3 ára lán væri að ræða. Þá mótmælti kærandi hækkun skattstjóra á eignahlið framtals vegna hækkunar húseigna umfram bókfært verð til samræmis við fasteignamatsverð, enda hefði uppgefið verið verið fengið hjá viðkomandi sveitarstjórn og því þar af leiðandi treyst að um rétt fasteignamatsverð hefði verið að ræða. Þá óskaði kærandi eftir því, að fjórðungur hreinna tekna yrði lagður í varasjóð.

Niðurstaða ríkisskattanefndar í málinu varð þessi:

„Samkvæmt upplýsingum skattstofu ------- hafði kærandi frest til að skila skattframtali sínu gjaldárið 1978 til 10. júní þ.á. Með því að skattframtal kærandi barst skattstjóra áður en frestur til skila á því var útrunninn eru ekki skilyrði til beitingar viðurlaga skv. 6. mgr. 47. gr. laga nr. 68/1971 og eru þau því felld niður.

Í 4. tl. bréfs skattstjóra, dags. þann 20. júní 1978, er kærandi krafinn greinargerðar um gjaldfærðan gengis-mun að fjárhæð kr. 1.517.276 og þess getið, að afskrift gengismunar sé að hámarki 20% á ári. Svör skyldu hafa borist innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Með bréfi, dags. þann 10. ágúst 1978, gaf kærandi skýringar og svör við fyrirspurn skattstjóra. Í úrskurði sínum heimilaði skattstjóri kæranda 12,5% fyrningu á gengistapi eða kr. 189.659.

Skv. 2. mgr. B-liðar og 5. mgr. C-liðar 15. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, má eignfæra sérstaklega gengistap á skuldum, er stofnað var til vegna öflunar fyrnanlegra eigna og fyrnast skv. C-lið, og afskrifa það að fullu á eftirstöðvum fyrningartíma hlutaðeigandi eignar eða á 5 árum, eftir vali skattþegns. Þykir mega heimila kæranda að fyrna umrætt gengistap á 5 árum eða um 20% á ári. Með tilliti til þess, að skattstjóra bárust fullnægjandi skýringar í bréfi kæranda, dags. þann 10. ágúst 1978, og með hliðsjón af atvikum máls þessa að öðru leyti, þykir rétt að fella niður viðurlög vegna bakfærslu gjaldfærðs gengismunar. Krafa kæranda viðvíkjandi tillagi í varasjóð er tekin til greina.

Að öðru leyti en að framan greinir er úrskurður skattstjóra staðfestur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja