Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 509/1979

Gjaldár 1978

Reglugerð nr. 245/1963, 17. gr. B-liður 3. tl.  

Bústofnsskerðing - Bústofnsaukning

Málavextir voru þeir, að kærandi hóf búskap á árinu 1977. Á landbúnaðarskýrslu. árið 1978 færði kærandi bústofn þann, er hann keypti á árinu 1977, á því verði, er hann greiddi fyrir hann sem matsverð í árslok eða samtals kr. 7.551.000. Bústofn þann, er kærandi átti fyrir, færði hann í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra framtalsárið 1978, og nam sú fjárhæð samtals kr. 150.000. Bústofnseign í árslok færði kærandi í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra framtalsárið 1978 og nam heildarfjárhæð hennar kr. 6.159.000. Mismun á þannig fengnu heildarverði bústofns í ársbyrjun og árslok kr. 1.542.000 færði kærandi til gjalda sem bústofnsskerðingu.

Skattstjóri gerði þá breytingu á framtali kæranda með skírskotun til 3. tl. B-liðar 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, að verð keypts búfjár á árinu 1977 var lækkað úr kr. 7.551.000 í kr. 5.604.000, er var matsverð gripanna í árslok 1977 samkvæmt skattmati ríkis-skattstjóra framtalsárið 1978. Mismun á heildarverði bústofns í ársbyrjun og árslok kr. 405.000 færði skattstjóri til tekna sem bústofnsaukningu. 3. tl. B-liðs 17. gr. reglug. nr. 245/1963 hljóðar svo:

„Bústofnsauka eða eftir atvikum bústofnsskerðingu skal finna þannig:

Bústofn allan í ársbyrjun og árslok skal færa á bústofnsskýrslu og reikna til verðs, hvort um sig með sama verði og hann er metinn til eignarskatts af ríkisskattanefnd í lok skattársins. Mismunurinn á heildarverði gripanna í ársbyrjun og árslok, bústofnsaukning eða bústofnsskerðing, færist til tekna eða gjalda eftir atvikum.

Þó skal eigi telja til tekna þá bústofnsaukningu, sem stafa kann af því að keyptur hafi verið búfénaður á árinu. Skulu þeir gripir, sem keyptir hafa verið á árinu og taldir með bústofni í árslok, einnig færðir á bústofnsskýrsluna, sem viðbót við bústofn í byrjun skattárs, taldir með matsverði ríkisskattanefndar í lok skattársins.

Á landbúnaðarframtalsskýrslu sé tilfærð tala alls þess búfjár, sem selt hefur verið eða fargað og tilgreind tala vanhaldafjár (fjöldi og tegund gripanna, þótt engar nytjar hafi gefið).

Séu gripir keyptir og seldir aftur á sama árinu, skal hagnaður þar af talinn fram sérstaklega á landbúnaðarframtalsskýrslu.“

Kærandi hélt því fram, að hvorki gæti talist eðlilegt né sanngjarnt að sömu reglum að þessu leyti væri beitt um þá, sem væru að hefja búskap og þá, er stundað hefðu búskap árum saman. Hlyti hinum fyrrnefndu að vera heimilt að telja kaupverð bústofns sem matsverð í lok skattárs, sbr. 3. mgr. ofangreinds töluliðs.

Ríkisskattanefnd staðfesti úrskurð skattstjóra með vísan til 3. tl. B-liðs 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einkum 3. mgr. töluliðsins.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja