Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 970/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 96/1978  

Stjórnskipulegt gildi laga - Úrskurðarvald

Kærður var staðfestingarúrskurður skattstjóra um álagningu opinberra gjalda samkvæmt IV. kafla bráðabirgðalaga nr. 96/1978, sbr. lög nr. 121/1978. Var sú krafa gerð að skattlagningin yrði felld niður, þar sem með setningu umræddra bráðabirgðalaga hefði verið farið út fyrir þær heimildir, sem stjórnarskrá íslenska lýðveldisins veitti til álagningar opinberra gjalda.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess aðallega krafist, að kærunni yrði vísað frá ríkisskattanefnd.

Frávísunarkrafan var studd þeim rökum, að áðurnefnd lög væru stjórnskipulega gild bæði að efni og birtingarhætti. Ekki yrði talið, að ríkisskattanefnd væri bær um eða hefði vald til að úrskurða um stjórnskipulegt gildi laga. Sem stjórnsýsluaðili og úrskurðaraðili á stjórnvaldsstigi væri nefndin bundin af ákvæðum laga nr. 121/1978 (sbr. brbl. 96/1978) á sama hátt og önnur skattyfirvöld.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Í málinu liggur fyrir kæranlegur efnisúrskurður af hendi skattstjóra, sem hlýtur að merkja, að hann hafi talið sig bæran að úrskurða málið að efni til. Að öðrum kosti hefði hann vísað málinu frá. Sú niðurstaða að efnisúrskurður skattstjóra standi óbreyttur, en málinu sé vísað frá á kærustigi hjá ríkisskattanefnd er ekki rökrétt og því ótæk. Þegar af þessari ástæðu er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra hrundið.

Í lögtaksmáli í fógetarétti Reykjavíkur nr. 2/1979:

Gjaldheimtan í Reykjavík gegn Leifi Sveinssyni, var úrskurðað um þá málsástæðu, sem kærandi reisir kröfu sína á. Niðurstaða málsins varð sú, að lög þau, sem um er deilt í máli þessu fari ekki í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar og því gild heimild til skattlagningar í þessu sambandi. Með því að úrskurðað hefir verið af dómstóli um hliðstætt sakarefni og mál þetta snýst um og með tilvísun til niðurstöðu þess úrskurðar er hinn kærði úrskurður skattstjóra staðfestur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja