Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 664/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 96/1978
Álagningaraðferð - Sérstakur skattur af atvinnurekstri
Kærð var álagning opinberra gjalda samkvæmt IV. kafla bráðabirgðalaga nr. 96/1978, um kjaramál og gerð krafa um frestun skattskylds söluhagnaðar af seldum vélum að fjárhæð kr. 71.155. Söluhagnaður þessi var færður til tekna í framtali 1978, en jafnframt gjaldfærð sérstök fyrning skv. D-lið 15. gr. laga nr. 68/1971. Mynduðu fyrningar stofn til hins sérstaka skatts af atvinnurekstri. Skattstjóri synjaði tilmælum kæranda um frestun á þeim forsendum, að skv. 11. gr. bráðabirgðalaga nr. 96/1978 bæri að leggja til grundvallar sömu skattstofna og álagning skv. skattskrá 1978 væri reist á.
Ríkisskattstjóri krafðist frávísunar með svofelldum rökum:
„Ekki verður séð að fært sé að verða við beiðni um frestun á að fyrna vélar og áhöld sérstakri söluhagnaðarfyrningu þar sem afdráttarlaus ákvæði 11. gr. laga nr. 121/1978 (sbr. brblög nr. 96/1978) standa í vegi fyrir því. Kæranda hefði borið að koma umræddri beiðni á framfæri við skattstjóra í almennum kærufresti eða öðrum kosti alltaf sú leið fær að leita t.d. til ríkisskattstjóra með skattbeiðni eða erindi hér að lútandi. Verður ekki séð að ríkisskattanefnd geti við afgreiðslu kæru þessarar tekið afstöðu til þessa hluta kærunnar aðra en þá að vísa þessu atriði frá.“
Ríkisskattanefnd staðfesti úrskurð skattstjóra með tilvísun til forsendna hans.