Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 458/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður (brl. nr. 122/1993, 9. gr., sbr. brl. nr. 30/1995, 4. gr.).   Reglugerð nr. 379/1995, 4. gr.  

Kærendur, sem fluttu til Akureyrar á árinu 1992, áttu íbúð í Hafnarfirði. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu þeirra um vaxtabætur árið 1995 og tók fram að ekkert hefði komið fram um að þau hafi við flutning á árinu 1992 áformað að taka íbúðarhúsnæði sitt í Hafnarfirði til eigin íbúðar að nýju. Var lagaskilyrði um eigin not íbúðarhúsnæðis ekki talið uppfyllt.

I.

Með kæru, dags. 21. nóvember 1995, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 2. apríl 1996, hefur umboðsmaður kærenda skotið til yfirskattanefndar þeirri ákvörðun skattstjóra að flytja vaxtagjöld úr reit 87 á skattframtali kærenda 1995 í reit 88, önnur vaxtagjöld, og synja kærendum þar með um vaxtabætur það gjaldár, sbr. bréf skattstjóra, dags. 12. október 1995, og kæruúrskurð, dags. 21. nóvember 1995. Hina kærðu ákvörðun byggði skattstjóri á því að kærendum bæru ekki vaxtabætur þar sem þau hefðu ekki íbúð sína í Hafnarfirði til eigin nota. Tók skattstjóri fram að hann hefði gögn undir höndum sem sýndu að kærendur hefðu haft leigutekjur af umræddri íbúð árin 1993 og 1994. Þar sem kærendur hefðu ekki svarað bréfi skattstjóra, dags. 12. október 1995, en með því hefði kærendum verið gefinn kostur á að gera grein fyrir leigutekjum sínum, áætlaði skattstjóri kærendum leigutekjur af íbúðinni með 200.000 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærendur telji að breyting skattstjóra á skattframtali þeirra sé ekki á rökum reist þar sem kærendur hefðu á þessum tíma flutt búferlum til Akureyrar vegna atvinnu sinnar. Íbúðin í Hafnarfirði hafi verið í sölumeðferð allt árið 1994 og fylgir kæru staðfesting fasteignasölu þeirrar er hafi haft íbúðina til sölumeðferðar. Með vísan til þessa telja kærendur að notkun þeirra á umræddri fasteign hafi ekki verið með þeim hætti er varði þau missi vaxtabóta gjaldárið 1995 í skilningi ákvæða 1. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 31. desember 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð í málinu:

„Með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar 801/1995 getur ríkisskattstjóri fyrir sitt leyti fallist á kröfur kæranda."

II.

Samkvæmt 1. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 122/1993 og 4. gr. laga nr. 30/1995, eiga þeir sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 og bera vaxtagjöld af lánum, sem talin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum. Samkvæmt 5. mgr. C-liðar 69. gr. er réttur til vaxtabóta bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Samkvæmt 6. mgr. sama stafliðar fellur réttur til vaxtabóta niður þegar íbúðarhúsnæði telst ekki lengur til eigin nota. Í 4. gr. reglugerðar nr. 379/1995, um greiðslu vaxtabóta á árinu 1995, segir og að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Þá segir að með eigin notum sé átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum. Sérstakar tímabundnar aðstæður, svo sem nám, veikindi eða atvinnuþarfir sem valdi því að eigandi íbúðarhúsnæðis geti ekki sjálfur nýtt það til íbúðar, leiði þó ekki til þess að hann missi rétt til vaxtabóta. Með tímabundnum aðstæðum sé átt við að eigandi íbúðarhúsnæðis geri líklegt að hann muni innan ákveðins tíma taka húsnæðið aftur til eigin nota.

Í máli þessu liggur fyrir að kærendur fluttu til Akureyrar á árinu 1992. Þykir ekkert komið fram um að þau hafi þá áformað að taka íbúðarhúsnæði sitt í Hafnarfirði til eigin íbúðar að nýju. Verður því ekki talið að uppfyllt sé skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 379/1995. Þykir því verða að hafna kröfu kærenda, en tekið skal fram að atvik í máli því sem lauk með úrskurði sem vísað er til í kröfugerð ríkisskattstjóra eru ekki sambærileg og í tilviki kærenda, m.a. að því er varðar tíma sem liðinn er frá því notkun íbúðarhúsnæðis breyttist.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja