Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 453/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 3. tl. — 8. gr. 1. mgr. 3. tl. — 31. gr. 3. tl. — 74. gr. 1. mgr. 3. og 4. ml.  

Skattskyldar tekjur — Vaxtatekjur — Verðbréf — Nafnverð verðbréfa — Eignarskattsverð — Eignfærsla — Niðurfærsla — Niðurfærsla verðbréfa — Kaupþing — Kaupþingsverð — Rekstrarútgjöld — Gjaldfærsla verðbréfa — Útistandandi viðskiptaskuldir — Tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir — Frádráttarheimild — Lagaheimild — Áhættufjármunir

Málavextir eru þeir, að kærandi gjaldfærði hálft nafnverð svonefndra Ávöxtunarbréfa eða 137.500 kr. í skattskilum sínum fyrir árið 1989. Með bréfi, dags. 27. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umrædd gjaldfærsla væri óheimil, þar sem hér væri ekki um að ræða gjöld til öflunar tekna, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Væri frádráttur þessi því niður felldur. Í kæru, dags. 29. ágúst 1990, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingunni. Vék hann að því, að varðveisla og ávöxtun peninga og annarra fjármuna væri órjúfanlegur hluti atvinnurekstrar. Í 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 8. gr. þeirra, væri kveðið á um, að vaxtatekjur af verðbréfum væru skattskyldar tekjur og á sama hátt hlytu töpuð verðbréf að teljast frádráttarbær gjöld. Með kæruúrskurði, dags. 2. október 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Tók skattstjóri fram, að hann féllist ekki á, að kaupverð tapaðra eða óvissra verðbréfa væri frádráttarbær kostnaður í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981. Skv. 3. tl. þessarar lagagreinar væri heimilt að draga frá tekjum lögaðila tap á útistandandi viðskiptaskuldum, sbr. 2. mgr. 5. tl. 74. gr. s.l. Verðbréf kæranda teldust ekki útistandandi viðskiptaskuldir og væri frádráttur því óheimill skv. þessu lagaákvæði. Lagaheimild skorti til frádráttar vegna lækkunar Ávöxtunarbréfa í hálft nafnverð.

Með bréfi, dags. 1. nóvember 1990, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er kæran svohljóðandi:

„Varðandi málavexti vísast til bréfs okkar dagsettu 29. ágúst 1990 og eftirfarandi rökstuðnings. Á tímum verðbólgu verður það sífellt algengara að fyrirtæki notfæri sér þjónustu verðbréfafyrirtækja til ávöxtunar á fjármunum sínum til lengri eða skemmri tíma. Ávöxtun fjármuna með þessum hætti er því eðlilegur þáttur í starfsemi fyrirtækja, til að viðhalda eignum þeirra. Áhættan sem eigendur verðbréfa taka er sú að bréfin falli í verði eða verði verðlaus. Það er í raun sá kostnaður (afföll) sem getur fallið á eigendur bréfanna. Í 3. og 4. ml. 5. tl. 74 gr. er í raun gert ráð fyrir að þetta geti gerst. Eigendur verðbréfa skulu telja þau fram á síðasta opinbera kaupþingsverði fyrir lok reikningsárs. Hækkun bréfanna færist því til tekna en lækkun til gjalda. Ennfremur má benda á að verðbréf mynda stofn til verðbreytingarfærslu samkvæmt ákvæðum 53. gr.

Í skattalögum eru ákvæði um að tap á sölu eignarhluta í félögum sé ekki frádráttarbær, sbr. 17., 18. og 23. gr. Þetta er hins vegar eina undantekningin í lögunum sem snertir ófrádráttarbærni áhættufjármuna. Það er því krafa okkar að gjaldfærsla ávöxtunarbréfa í skattframtali umbjóðanda okkar verði viðurkennd.“

Með bréfi, dags. 17. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þær kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Engin lagaheimild er til hinnar umkröfðu gjaldfærslu. Er kröfu kæranda því synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja