Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1221/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 77/1977  

Skyldusparnaður - Stjórnskipulegt gildi laga - Dómsúrlausn - Réttaráhrif

Kærandi krafðist þess, að skyldusparnaður að fjárhæð kr. 694.000 álagður samkvæmt lögum nr. 77/1977, um skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum, yrði felldur niður. Rök kæranda voru þau, að ákvæði laga þessara brytu í bága við ákvæði stjórnarskrár íslenska lýðveldisins og væru því ekki gild réttarheimild. Þessu til stuðnings benti kærandi m.a. á, að á skyldusparnaðinn reiknuðust ekki vextir og ekki væri hann undanþeginn tekjuskatti og útsvari, svo sem skyldusparnaður samkvæmt lögum nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, nyti. Væri þetta ekki samþýðanlegt þeirri stjórnskipulegu meginreglu, að allir skyldu jafnir fyrir lögum. Þá hefðu umrædd lög verið sett í lok tekjuársins og væru því afturvirk. með þeim hætti að í bága færi við grundvallarreglu íslensks réttar um að lög hefðu ekki afturvirk áhrif.

Ríkisskattstjóri krafðist frávísunar og var frávísunarkrafan studd þeim rökum, að lög nr. 77/1977 væru stjórnskipulega gild bæði að efni og birtingarhætti. Ekki yrði talið, að ríkisskattanefnd væri bær um eða hefði vald til að úrskurða stjórnskipulegt gildi laga. Um úrlausnir ríkisskattanefndar sem og aðrar stjórnvaldsákvarðanir giltu þær tvær meginreglur annars vegar að efni úrlausnar færi ekki í bága við lög og hins vegar, að lagaheimild væri fyrir hendi til þess að stjórnvald gæti úrskurðað í máli.

Niðurstaða ríkisskattanefndar varð þessi.

„Í fógetarétti Reykjavíkur féll úrskurður þann 3. júlí 1979 í lögtaksmáli Gjaldheimtunnar í Reykjavík gegn kæranda (lögtaksmáli nr. 2/1979). Í því máli var úrskurðað um kæruefni það, er hér liggur fyrir. Með skírskotun til þess, að dómsúrlausn liggur fyrir um kæruefnið, þykir bera að vísa kæruatriði þessu frá ríkisskattanefnd, enda er eigi ágreiningur um fjárhæð hins umdeilda skyldusparnaðar sem slíka.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja