Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1289/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 8/1972, 23. gr. 2. mgr.  

Útsvar - Lífeyrisiðgjald atvinnurekanda

Kæruefnið var sú breyting, er skattstjóri gerði á skattframtali kæranda 1978 að færa gjaldaliðinn „launatengd gjöld tilheyrandi atvinnurekstri“ að fjárhæð kr. 150.185 af rekstrarreikningi og í frádráttarhlið framtals. Um var að ræða hluta iðgjalds til lífeyrissjóðs Verkfræðingafélags Íslands, þ.e. framlag atvinnurekstrarins til sjóðsins 6/10. Launþegahlutann 4/10 kr. 100.123 færði kærandi til frádráttar á framtali. Með því að framlag þetta væri vegna atvinnurekandans sjálfs taldi skattstjóri það ekki rekstrarútgjöld í skilningi 11. gr. skattalaga, heldur persónuleg útgjöld kæranda sjálfs. Bæri því að færa iðgjaldið í heild til frádráttar á framtali.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að ákvörðun skattstjóra yrði hrundið og tilfærð greiðsla iðgjalds á rekstrarreikningi yrði látin óbreytt standa. Kærandi ynni á eigin vegum sem verkfræðilegur ráðunautur. Iðgjaldi væri skipt skv. iðgjaldaskrá L.V.F.Í. í launþegahluta og hluta vinnuveitanda. Á hann bæri að líta í þessu sambandi bæði sem atvinnurekenda og launþega.

Hér væri því um rekstrarútgjöld að ræða skv. D-lið 13. gr. skattalaga.

Ríkisskattstjóri féllst á kröfu kæranda.

Ríkisskattanefnd taldi hins vegar með vísan til 2. mgr. 23. gr. laga nr. 8/1972, að staðfesta bæri úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja