Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 454/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. B-liður 4. tl. — 62. gr. 1. tl. — 63. gr. 2. mgr. — 68. gr. A-liður   Lög nr. 9/1984 — 1. gr. — 2. gr. — 10. gr. — 11. gr.   Lög nr. 91/1989 — 23. gr.  

Fjárfestingarfrádráttur — Fjárfesting manna í atvinnurekstri — Fjárfesting í hlutabréfum — Frádráttur vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri — Hlutabréf — Hlutabréfakaup — Hlutafélag — Frádráttarheimild — Lagaheimild — Hjón — Sköttun hjóna — Persónuafsláttur — Frádráttur, millifærður frá maka — Millifærður frádráttur frá maka — Tekjuskattsstofn — Útsvarsstofn — Endurgreiðsla ekki fyrir hendi vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar tekjum sínum í skattframtali sínu árið 1990 fjárfestingu í atvinnurekstri 100.000 kr. samkvæmt 4. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum. Um var að ræða fjárfestingu í hlutabréfum í X hf. 100.000 kr. og lét kærandi fylgja skattframtali sínu árið 1990 tilskilda greinargerð um frádrátt þennan (RSK 3.10). Við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1990 var tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda ákvarðaður að teknu tilliti til nefnds frádráttar. Kærandi bar ekki tekjuskatt og gekk óráðstafaður persónuafsláttur til greiðslu útsvars hans að fullu.

Í kæru til skattstjóra, dags. 10. ágúst 1990, taldi umboðsmaður kæranda, að kærandi ætti „rétt á endurgreiðslu eins og lög um fjárfestingar segja til um.“ Krafðist hann lagfæringar í samræmi við þetta sjónarmið. Með kæruúrskurði, dags. 2. október 1990, vísaði skattstjóri kærunni frá sem tilefnislausri. Tók hann fram, að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 hefði kærandi notið nefnds frádráttar vegna fjárfestingar í atvinnurekstri.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. nóvember 1990. Í kærunni setur kærandi fram það sjónarmið sitt, að hann eigi að fá endurgreiddan skatt af umræddri fjárhæð fjárfestingar í atvinnurekstri 100.000 kr. Kærandi bendir á, að hvergi komi fram, að gjaldendur þurfi að hafa tekjur yfir skattleysismörkum til þess að fá endurgreiðslu vegna fjárfestingar í atvinnurekstri.

Með bréfi, dags. 15. apríl 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Krafa kæranda virðist á því sjónarmiði byggð, að hann eigi sjálfstæðan endurgreiðslurétt af einhverju tagi vegna umræddrar fjárfestingar í atvinnurekstri án tillits til skattálagningar að öðru leyti. Hvorki í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, né lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum, er mælt fyrir um neinn slíkan rétt. Umrædd fjárhæð fjárfestingar kæranda í atvinnurekstri kemur til frádráttar tekjum hans, sbr. 4. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og til ákvörðunar tekjuskattsstofns hans, sbr. 1. tl. 62. gr. s. l. Sama gildir um útsvarsstofn hans, sbr. 23. gr. laga nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga. Voru þessir skattstofnar kæranda ákvarðaðir að teknu tilliti til umrædds frádráttar að fullu og álagning byggð á þeim. Frekari áhrif hefur umræddur fjárfestingarfrádráttur ekki, en ákvæði 2. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um yfirfærslu þargreinds heildarfrádráttar til maka sé hann hærri en tekjur kemur ekki til skoðunar í tilviki kæranda. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er kröfu kæranda synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja