Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1423/1979

Gjaldár 1978

Reglugerð nr. 81/1962. 6. gr   Lög nr. 8/1972, 37. gr.  

Aðstöðugjaldsstofn - Útflutningsgjöld

Ágreiningur reis um aðstöðugjaldsstofn vegna útfluttra sjávarafurða og hafði skattstjóri áætlað aðstöðugjaldsstofn. Kærandi hafði fært til tekna nettóskilaverð framleiðslu fiskvinnslustöðvar sinnar. Sérstakir umboðsaðilar, þ.e. sölusamtök o.fl., önnuðust sölu á fram­leiddum sjávarafurðum kæranda. í forsendum úrskurðar skattstjóra sagði svo:

„Heildarsöluandvirði vöru, án nokkurs frádráttar útgjalda, teljast brúttótekjur seljanda. öll útgjöld, sem seljanda ber að greiða áður en varan er seld og kaupandi tekur við henni til eignar, teljast rekstrarútgjöld seljanda. Kærandi selur útflutningsvörur sínar með aðstoð umboðssala. Umboðssali getur ekki talist hinn raunverulegi seljandi vörunnar, heldur er það eigandi vörunnar, þ.e.a.s. í þessu tilfelli kærandi.

Umboðssali leggur í mörgum tilfellum út fyrir vissum sölu- og flutningskostnaði vegna þeirra vara, sem hann selur í umboðssölu. Þessar greiðslur innir hann af hendi fyrir hönd seljanda, þ.e. eiganda vörunnar, og endurkrefur síðan þegar uppgjör sölu fer fram, svo og krefur umboðssali eiganda um umboðslaun. Þessar greiðslur svo og umboðslaun til umboðssala, verða að teljast rekstrarútgjöld seljanda. Telja verður að heildarsöluandvirði útflutningsafurðanna séu brúttótekjur kæranda og öll rekstrarútgjöld sem til falla áður en afurðirnar eru seldar, séu rekstrarútgjöld kæranda. Kærandi hefur ekki gert grein fyrir heildarsöluandvirði og heildarútgjöldum af seldum útflutningsvörum á árinu 1977.“

Kærandi krafðist þess, að aðstöðugjald yrði lagt á í samræmi við aðstöðugjaldsframtal á þeim grundvelli, að umræddur kostnaður og gjöld vegna útfluttra sjávarafurða teldist ekki til rekstrarútgjalda að því er varðaði álagningu aðstöðugjalds. Til vara gerði kærandi þá kröfu, að aðstöðugjaldsframtal yrði lagt til grundvallar álagningu, en þeim frádráttarliðum bætt við aðstöðugjaldsstofn, er ríkisskattanefnd kynni að telja til rekstrarútgjalda.

Næmu þessir liðir kr. 99.241.121 þar af útflutningsgjöld kr. 76.757.744. Vísað var til þess, að gjöld þessi væru skattur, er ekki væri unnt að telja til rekstrarútgjalda.

Ríkisskattstjóri krafðist þess, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur, enda yrði að telja öll gjöld, er til féllu, áður en afurðir væru seldar, til rekstrarútgjalda í skilningi A-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og B-lið 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo um ágreiningsefnið:

„Með vísan til 37. gr. laga nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald, verður eigi fallist á sjónarmið kæranda að því er varðar hina umþrættu kostnaðarliði vegna útfluttra sjávarafurða. 1 stað áætlunar skattstjóra þykir mega haga álagningu aðstöðugjalds á grundvelli framtalsgagna kæranda að viðbættum framkomnum viðbótargögnum og skýringum af hans hálfu.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja