Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1282/1979
Gjaldár 1977
Lög nr. 8/1972
Aðstöðugjald - Iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald
Málavextir eru þeir, að skattstjóri lagði á kæranda sem var kaupfélag, aðstöðugjald vegna sölu félagsins á hluta húseignar nokkurrar svo og gerði honum að greiða iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald í tilefni af sölu þessari. Taldi skattstjóri framkvæmdir við bygginguna gjaldskyldar með því að byggingaframkvæmdir hefðu verið þáttur í starfsemi félagsins á þeim tíma, er þær fóru fram og vísaði til byggingaframkvæmda félagsins annars staðar. Skattstjóri lagði til grundvallar sem gjaldstofn kr. 5.279.400, er lagt hefði verið í hina seldu ný-byggingu skv. skattframtölum félagsins árin 1974, 1975 og 1976. Eldri hluti eignarinnar var áfram í eigu félagsins.
Af hálfu kæranda var álagningu aðstöðugjalds og iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds vegna sölu á umræddri nýbyggingu mótmælt. Eign þessa, er hefði um árabil verið í eigu félagsins, hefði verið ætlunin að fullgera og leigja út þann hluta, er félagið þyrfti ekki að nota sjálft. Hefði og hluti verið í leigu. Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu hefði á árinu 1976 verið ákveðið að selja stóran hluta eignarinnar. Taldi kærandi að þessi ráðstöfun gæti ekki skapað aðstöðugjaldsskyldu og krafðist lækkunar aðstöðugjalds og iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds í samræmi við það. Aðrar byggingaframkvæmdir hefðu verið allt annars eðlis.
Ríkisskattanefnd féllst á kröfur kæranda með skírskotun til gagna málsins.