Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 111/1979
Gjaldár 1977
Lög nr. 8/1972, 38. gr.
Aðstöðugjald - Gjaldstig
Kærandi, er hafði með höndum rekstur ferðaskrifstofu, krafðist þess, að aðstöðugjald yrði ákvarðað 0,33% af aðstöðugjaldsstofni, þ.e. sama og lagt var á flugrekstur. Skattstjóri hafði ákvarðað gjaldstig 1,3%. Kærandi færði fram þau rök, að hann tæki flugvélar á leigu til flutnings á farþegum aðallega til sólarlanda. Kærandi hefði ekki IATA leyfi og seldi því ekki farseðla. Ekki væri munur á því að eiga flugvél og selja ferðir með flugvélinni til sólarlanda og taka á leigu flugvél og selja með henni samskonar ferðir.
Ríkisskattstjóri krafðist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með svofelldum rökum:
„Af hálfu ríkisskattstjóra er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra enda verður „leiga flugvéla“ til farþegaflutninga í tilviki kæranda á engan hátt jafnað til þess að hann hafi með höndum flugrekstur í skilningi tilkynningar Skattstjórans í Reykjavík, dags. 28. mars 1977, byggðrar á ákvörðun Borgarstjórnar Reykjavíkur sem stoð á í 38. gr. laga nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 81/1962 um aðstöðugjald, sbr. og 10. gr. laga nr. 69/1962 um tekjustofna sveitarfélaga.
Þeim samningum kæranda við eigendur flugvéla um leiguflug, sem eru meðal gagna málsins, verður jafnað til verksamninga en ekki til leigusamninga í lagaskilningi og venjubundinni merkingu þeirra orða þar eð verkskylda er aðalþátturinn í skyldu eigenda flugvélanna. Kærandi sér hvorki um að annast rekstur þeirra flugvéla sem hann „leigir“ né að greiða beint almennan og nauðsynlegan rekstrarkostnað þeirra. Þá ræður kærandi ekki áhafnir flugvélanna og hann tekur hvorki á sig rekstrarábyrgð á þeim né flytjandaábyrgð á flutningi þeirra. Samkvæmt efnisinnihaldi leiguflugssamninganna taka eigendur flugvélanna að sér að fljúga fyrir kæranda með tiltekinni tegund flugvéla ákveðna flugleið á ákveðnum tíma fyrir fastbundið gjald með tilgreindum sætafjölda. Endurgjaldið fer þannig ekki eftir raunverulegri sætanýtingu. Kærandi hefur umráð og ráðstöfunarrétt á farþegasætum flugvélanna á tiltekinni leið á tilteknum tíma og hann selur í ferðirnar á sína áhættu fyrir verð sem hann ákveður sjálfur.“
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:
„Kærandi rekur ferðaskrifstofu. Ekki þykir skipta máli í þessu sambandi með hvaða hætti hann sér viðskiptavinum sínum fyrir farkosti til ferðalaga. Er aðstöðugjaldið álagt eftir réttum gjaldstiga eins og greinir í umsögn ríkisskattstjóra. Úrskurður skattstjóra er því staðfestur.“