Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 624/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1967, 5. gr.  

Iðnlánasjóðsgjald

Kært var til niðurfellingar álagt iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald. Í úrskurði skattstjóra sagði svo um álagningu gjalda þessara:

„Kærandi rökstyður kæru svo, að hann hafi ekkert iðnpróf né meistararéttindi í neinni iðngrein t.d. trésmiði, enda grundvallist starfsemi hans ekki á meistararéttindum, því beri að fella niður álagt iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald. Með hliðsjón af kærum dags. 18/8 og 9/8 1978 og tilvitnuðu bréfi dags. 15/9 1976, en í því er starfsemi kæranda, sundurliðuð í eftirfarandi verkþætti.

1.Að jafna í skurðum undir hitaveitustokkum.
2.Slá upp fyrir hitaveitustokkum.
3. Binda járn í hitaveitustokkum.
4. Styrkja hitaveitustokka.
5. Einangra hitaveiturör.
6. Steypa lok á hitaveitustokka.

Er starfsemi kæranda mannvirkjagerð, þ.e. bygging hitaveitustokka. Starfsemi kæranda virðist því falla undir iðnaðinn í landinu og beri samkvæmt því að leggja á iðnlánasjóðsgjald samkvæmt 5. gr. laga nr. 68/1967 og iðnaðarmálagjald samkvæmt lögum nr. 48/1975. Lítið er svo á, að áskilin iðnréttindi við framkvæmd verks séu ekki ein­hlítur mælikvarði á, hvort starfsemi falli undir iðnað eða ekki, heldur beri einnig að meta eðli starfseminnar, þ.e. í þessu tilviki mannvirkjagerð, sem framkvæmd er í hverju tilviki. Er kröfu kæranda synjað.“

Kærandi ítrekaði gerðar kröfur í kæru til ríkiskattanefndar og krafðist niðurfellingar hinna kærðu gjalda með þeim rökum, að starfsemi sú, er hann ræki, félli ekki undir hugtakið iðnað í skilningi 5. gr. laga nr. 68/1967, um iðnlánasjóð.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Á það þykir verða að fallast með skattstjóra, að starfsemi kæranda sé gjaldskyld samkvæmt 5. gr. laga nr. 68/1967, um iðnlánasjóð og 1. gr. laga nr. 48/1975, um iðnaðarmálagjald og er úrskurður skattstjóra því staðfestur með vísan til forsendna hans að því er þetta kæruatriði varðar.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja