Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 457/1992

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 51. gr. 2. mgr.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Greinargerð um vaxtagjöld — Fylgigögn skattframtals — Verðbætur — Gjaldfallnar verðbætur — Verðbætur, gjaldfallnar — Lífeyrissjóður — Skuldbreyting — Skuldbreytingarlán — Lánskjör — Lánstími — Uppgreiðsla láns — Lánsuppgreiðsla — Frádráttarheimild

Málavextir eru þeir, að meðal vaxtagjalda til frádráttar í reit 87, sbr. greinargerð um vaxtagjöld (RSK 3.09) færði kærandi 494.433 kr. vegna láns frá Lífeyrissjóði SÍS. Alls námu vaxtagjöld skv. síðastnefndri greinargerð 588.872 kr. Frádráttarfjárhæð vaxtagjalda í reit 60 í skattframtali kæranda árið 1987 takmarkaðist við hámarksfjárhæð samkvæmt lögum eða 585.200 kr.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 23. desember 1988, og að fengnu svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 9. janúar 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda hinn 31. janúar 1989, að áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1987 hefðu verið endurákvörðuð vegna niðurfellingar verðbóta af nefndu láni 458.001 kr. er ekki væru gjaldfallnar verðbætur. Kom fram í bréfi skattstjóra, dags. 23. desember 1988, að kærandi hefði tekið umrætt lán hjá Lífeyrissjóði SÍS 1982 til 25 ára. Lánið væri talið að fullu uppgreitt 31. desember 1986, þótt eftir væru 21 ár af lánstímanum og hefði greiðslan numið 586.101 kr. Á framtali 1987 hefði kærandi fært sem skuld við lífeyrissjóðinn sömu fjárhæð 586.101 kr. og væri það lán til 21 árs eða sá tími, sem eftir lifði af tíma fyrri skuldar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 16. febrúar 1989, og vísað til bréfs, dags. 9. janúar 1989. Í því bréfi hélt umboðsmaður kæranda því fram, að um nýja lántöku hefði verið að ræða og uppgreiðslu fyrra láns. Bæri því að telja verðbætur af hinu fyrra láni með vaxtagjöldum til frádráttar.

Með kæruúrskurði, dags. 21. maí 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á sömu forsendum og áður. Tók hann fram, að nýtt lán hefði verið fengið til að skuldbreyta eldra láni og fjárhæðir hefðu verið þær sömu. Lánveitandi væri sá sami og trygging í sama veðrétti. Gjalddagi afborgana væri sá sami og einnig lánstími.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. júní 1990, og krefst hann þess að verðbætur af umræddu láni verði látnar óhreyfðar standa meðal vaxtagjalda til frádráttar. Eldra lán hafi verið greitt upp með nýju láni. Rangt sé hjá skattstjóra, að um sama veðrétt sé að ræða svo sem nánar er lýst.

Með bréfi, dags. 19. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í máli þessu f.h. gjaldkrefjenda:

„Eigi verður annað séð en að hér sé um skuldbreytingarlán að ræða fengið hjá sömu lánastofnun, gjalddagi hinna árlegu afborgana er hinn sami og lánstími einnig. Því er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.“

Þegar lánsráðstafanir kæranda hjá umræddum lífeyrissjóði, sem í málinu greinir, eru virtar, verður ekki talið, að verðbætur þær, sem kærandi hefur út af þeim fært meðal vaxtagjalda til frádráttar, uppfylli lagaskilyrði þess frádráttar skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. mgr. 51. gr. sömu laga. Er kröfu kæranda því synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja