Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 94/1979
Gjaldár 1978
Reglugerð nr. 119/1965, 9. gr. Lög nr. 14/1965
Launaskattur
Málavextir voru þeir, að kærandi hóf störf í þágu Pósts og síma þann 1. nóvember 1977 við póstflutninga frá kauptúni nokkru um nærliggjandi sveitir. Greiðslur skyldu miðaðar við ákveðna fjárhæð pr. kílómetra.
Skattstjóri taldi, að kærandi hefði tekið að sér póstflutningana sem sjálfstæður verksali og bæri honum því skv. ákvæðum 2. gr. laga nr. 14/1965 um launaskatt og 9. gr. reglugerðar nr. 119/1965 um launaskatt, að greiða launaskatt af þessari starfsemi. Ákvarðaði skattstjóri því kæranda launaskatt kr. 4.886 og miðaði þá álagningu við 6/52 hluta af viðmiðunarkaupi bifreiðastjóra.
Kærandi krafðist niðurfellingar hins álagða launaskatts á þeim forsendum að hann væri opinber starfsmaður í hlutastarfi, en ekki sjálfstæður verksali.
Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð svofelld krafa:
„Eins og starfssambandi kæranda og Pósts og síma er háttað er ekki unnt að fallast á umkrafða niðurfellingu launatengdra gjalda. Verður því að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“
Ríkisskattanefnd taldi ekki efni til breytinga á úrskurði skattstjóra. Var úrskurðurinn því staðfestur með vísan til forsendna hans.