Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 196/1979
Gjaldár 1978
Reglugerð nr. 119/1965, 9. gr. Lög nr. 14/1965
Launaskattur - Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra
Kærandi, sem var löggiltur endurskoðandi, krafðist þess, að viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra til launaskatts yrðu látnar gilda í stað viðmiðunarreglna skattstjóra. Kærandi taldi, að framtal sitt gæfi ekki tilefni til að beitt yrði hækkun á viðmiðunartölur ríkisskattstjóra.
Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur. Ríkisskattstjóri færði svofelld rök fyrir kröfu sinni:
„Kærandi misskilur greinilega tilgang og tilurð þeirra reglna sem gilda um ákvörðun launaskattsstofns manna sem vinna við eigin rekstur, eða hafa með höndum sjálfstæða starfsemi. Eins og heiti „viðmiðunarreglna“ gefur ótvírætt til kynna hafa þær ekki að geyma fastákveðið hámark eða lágmark hvað fjárhæðir varðar. Skattstjórum er síðan heimilt og jafnframt skylt, að víkja frá viðmiðunartölunum og var svo gert í tilviki kæranda.
Af kæranda hálfu hafa engin rök eða málsástæður komið fram sem bent gætu til að ætla megi að launaskattstofn hans sé ranglega ákvarðaður.
Ætti þó kæranda að vera ljósar þær lagareglur sem um ákvörðun stofnsins gilda og þar með þau lagarök sem leiða þarf að vefengingu á fjárhæð stofnsins.“
Í niðurstöðu ríkisskattanefndar segir:
„Í 2. og 3. málsgr. 9. gr. reglugerðar um launaskatt nr. 119/1965 eru ákvæði um, að ríkisskattstjóri skuli árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til ákvörðunar launaskattsstofns hjá þeim, sem sjálfstæðan atvinnurekstur stunda. Skattstjóra er heimilt að víkja frá viðmiðunarreglum þessum, sbr. 4. málsgr. 9. gr. reglugerðarinnar.
Skattstjóri hefir eigi leitt rök að því að ástæða hafi verið til þess að bregða frá hinum almennu viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra að því er varðar ákvörðun launaskattsstofns kæranda og þykir því bera að fallast á kröfu hans.“