Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1397/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 67/1971, 25., 36. gr.  

Slysa- og lífeyristryggingariðgjöld - Formlegir annmarkar.

Úrskurði skattstjóra varðandi slysa- og lífeyristryggingariðgjöld atvinnurekenda, lögð á kæranda gjaldárið 1978, var skotið til ríkisskattanefndar.

Þeirri aðferð sem skattstjóri notaði við útreikning tryggingarskyldra vinnuvikna, var mótmælt. Krafist var, að gjöldin yrðu lögð á kæranda eftir vinnuvikufjölda starfsmanna, eins og þær voru tilgreindar á launamiðafylgiskjali 1978.

Samkvæmt því fylgiskjali með innsendum launamiðum 510 að tölu, voru vinnuvikur taldar vera 6121. Af launamiðunum voru um 330 miðar án tilgreiningar vinnuvikna vegna greiðslna fyrir aðkeypt ritstörf og stjórnarstörf.

Skattstjóri áætlaði 1234 vinnuvikur vegna þessara launamiða og reiknaði af þeim slysa- og lífeyristryggingariðgjald atvinnurekenda.

Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Ríkisskattanefnd komst að þeirri niðurstöðu, að skattstjóri hefði eigi gætt réttra aðferða við framkvæmd hinnar kærðu breytingar og felldi hana af þeim sökum niður. Segir svo um þetta í úrskurði nefndarinnar:

„Eigi verður séð af gögnum málsins, að skattstjóri hafi skorað á kæranda að bæta úr ágalla á innsendu launaframtali, áður en hann hófst handa um að áætla honum vanframtaldar vinnuvikur til álagningar slysa- og lífeyristryggingaiðgjalds atvinnurekenda.

Telja verður, að ákvæði 37. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt gildi að efni til við álagningu iðgjalda samkvæmt 25. gr. og 36. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja