Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 535/1979
Gjaldár 1978
Lög nr. 67/1971, 25., 36. gr.
Slysatryggingargjald - Lífeyristryggingargjald - Sambýlisfólk - Ráðskona
Kærð voru til niðurfellingar eftirtalin gjöld gjaldárið 1978: Slysatryggingargjald atvinnurekenda skv. 36. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, kr. 650, og lífeyristryggingargjald atvinnurekenda skv. 25. gr. s.l. kr. 7.150. Gjöld þessi voru álögð vegna tryggingar sambýliskonu kæranda vegna starfa hennar við heimilisstörf.
Kærandi krafðist niðurfellingar hinna álögðu gjalda á þeim forsendum, að ekki væri um það að ræða, að hann hefði ráðskonu í þjónustu sinni. Um væri að ræða venjulegt heimilishald og óvígða sambúð. Enginn grundvöllur væri því fyrir álagningu umræddra gjalda.
Ríkisskattstjóri krafðist þess að álagningin yrði staðfest og færði fyrir því svofelld rök:
„Hin kærðu gjöld byggja á þeim ákvæðum almannatryggingalaganna sem tryggja þeim aðilum sem búa í óvígðri sambúð og starfa að heimilisstörfum rétt til lífeyris vegna andláts sambýlisaðila og slysatryggingagreiðslna úr almannatryggingum vegna örorku eða slysa sem þeir verða fyrir við heimilisstörfin. Enda þótt gjaldstofn sé miðaður við ákveðinn áhættuflokk slysatryggingar og sem ákveðinn hundraðshluti lífeyristryggingaiðgjalds atvinnurekenda er ekki þar með sagt að því sé slegið föstu að gjaldendur séu atvinnurekendur. Gjöld þessi eru lögð á skv. ákvörðun tryggingaráðs og hefur álagning þeirra um áraraðir verið með sama hætti og ríkisskattanefnd hefur staðfest álagningu þeirra, sbr. t.d. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 140/1973.
Kærandi virðist fullnægja þeim skilyrðum sem fyrir þurfa að vera til að gjöld þau sem hér um ræðir verði á hann lögð.
Í úrskurði ríkisskattanefndar sagði, að eigi yrði séð, að þau ákvæði laga um almannatryggingar, sem álagning hinna kærðu gjalda væri reist á, ættu við svo sem málinu væri háttað. Var krafa kæranda því tekin til greina.