Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 548/1979

Söluskattur 1977

Lög nr. 10/1960  

Söluskattur - Eignarnám

Málavextir voru þeir, að kærandi seldi Vegagerð ríkisins efni til ofaníburðar á árinu 1974 og aftur á árinu 1976. Ekki varð séð, að öðrum hefði verið selt jarðefni. Lagður var á söluskattur kr. 6.666 og viðurlög kr. 1.766 vegna sölu þessarar. Krafist var niðurfellingar af hálfu kæranda.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Sala kæranda á jarðefni virðist bundin við eftirspurn af hálfu Vegagerðar ríkisins. Landeigandi er samkvæmt vegalögum skyldur til að leyfa efnistöku í landi sínu og þola eignarnám á því, ef ekki takast samningar.

Að svo vöxnu máli þykir álagning söluskatts ekki hafa trygga lagastoð, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 10/1960, og er krafa kæranda því tekin til greina.“

Lög nr. 10/1960. Söluskattur/Lausafjárleiga.

Kæruefni var álagning sölugjalds að fjárhæð kr. 125.044 og viðurlaga að fjárhæð kr. 51.893 á leigu á dráttarvagni til efnisflutninga.

Málavextir voru þeir, að samkvæmt leigusamningi, dags. 5. janúar 1977, leigði kærandi Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar dráttarvagn til efnisflutninga tímabilið janúar-mars 1977. Í leigu fyrir vagninn skyldi leigutaki samkvæmt samningnum greiða kr. 100.000 á mánuði í fast gjald fyrir umráðarétt vagnsins. Auk þess skyldi leigutaki greiða kr. 95 fyrir hvern rúmmetra af fluttu efni. Samtals nam greiðsla til kæranda kr. 750.300.

Af hálfu kæranda var þess krafist aðallega, að sölugjald og viðurlög vegna leigu þessarar yrðu niður felld, þar sem notkunin væri söluskattsfrjáls, þ.e.a.s. flutningar á hrauni og ofaníburði. Til vara var gerð sú krafa, að einungis yrði lagt sölugjald á mánaðargjaldið kr. 100.000 pr. mánuð eða samtals kr. 300.000.

Ríkisskattstjóri krafðist staðfestingar á úrskurði skattstjóra. í kröfugerð ríkisskattstjóra segir m.a. svo:

„Eins og skattstjóri bendir réttilega á í úrskurði er lausafjárleiga, þ.e. leigugjald eftir lausafé, alltaf söluskattsstofn. Leigutaki getur hins vegar notað tæki til söluskattsfrjálsrar starfsemi, t.d. flutninga, jarðræktar, vinnu við húsbyggingar á byggingarstað o.s.frv. Slík notkun leigutakans breytir ekki söluskattsskyldu leigusalans af leiguverðinu.

Með vísan til þess að hvorki kærandi sjálfur né leigustarf­semi hans er sérstaklega undanþegin söluskatti eftir núgildandi lögum og með hliðsjón af öllum gögnum málsins og forsendum hins kærða úrskurðar er ítrekuð staðfestingarkrafan.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Greiðsla sú, sem hinn umdeildi skattur er á lagður, sýnist vera fyrir afnot tengivagns til malar- og annarra efnisflutninga. Með hliðsjón af því og atvikum málsins að öðru leyti þykir mega jafna leigugreiðslunni við greiðslu fyrir vörubifreiðaakstur. Er sölugjald og viðurlög vegna ársins 1977 því fellt niður.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja