Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 470/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 32/1978 — 37. gr.   Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 8. tl.  

Hlutafélag — Lögaðili — Hlutabréf — Jöfnunarhlutabréf — Nafnverð hlutafjár — Arður — Arðsfrádráttur — Arður af hlutabréfum — Arðsúthlutun — Arðsfrádráttur hlutafélags vegna greidds eða úthlutaðs arðs — Reiknaður arður — Arður, reiknaður — Greiddur arður — Arður, greiddur — Arður, breyting á uppgjörsaðferð — Uppgjörsaðferð arðs, breyting

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1989 að lækka þar tilfærðan frádrátt vegna arðs umfram 10% af nafnverði hlutafjár, þ.e. um 1.240.000 kr., og lækka fjárhæð yfirfæranlegs rekstrartaps um sömu fjárhæð. Til stuðnings þessari ákvörðun sinni vísaði skattstjóri til ákvæða 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 8/1984. Við meðferð málsins hjá skattstjóra var breytingunni mótmælt af hálfu kæranda. Var á það bent, að á aðalfundi kæranda árið 1988 hafi verið gefin út jöfnunarhlutabréf að fjárhæð 12.400.000 kr. og hafi þá nafnverð hlutafjár orðið 18.600.000 kr. Arður hafi verið ákveðinn 10% eða 1.860.000 kr. Áður reiknaður og bókaður arður í skattframtali kæranda árið 1988 hafi numið 620.000 kr. og væru því 1.240.000 kr. óbókaðar sem frádráttur. Í samræmi við ofangreint ákvæði hafi það verið gert í skattframtali kæranda árið 1989. Jafnframt sé þar færður til frádráttar reiknaður arður 10% af nafnverði hlutafjár eins og það stóð eftir útgáfu jöfnunarhlutabréfa, þ.e.a.s. 10% af 18.600.000 kr. eða 1.860.000 kr.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar og þess krafist að breyting skattstjóra verði felld úr gildi. Til stuðnings þeirri kröfu eru leidd fram sömu rök og áður.

Með bréfi, dags. 16. september 1991, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Kæran er dagsett 14. febrúar 1991 og varðar hún úrskurð skattstjóra, dagsettan 18. janúar sama ár. (Er ranglega tilgreint sem 1990 í úrskurði.) Sá úrskurður fjallaði um arðsfrádrátt í skattframtali 1989.

Ríkisskattstjóri gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Kærandi dró frá tekjum sínum í skattframtali 1989 arð samtals að fjárhæð kr. 3.100.000. Nafnverð hlutafjár samkvæmt efnahagsreikningi 31. des. 1988 er kr. 18.600.000.

Samkvæmt 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 er arður frádráttarbær frá tekjum þess árs sem hann er reiknaður af. Hafi félag haft þá frádráttarreglu að telja 10% arð til frádráttar á útborgunarári og ákveður að breyta um reglu og reikna 10% arð vegna ársins hefur verið talið að slík ákvörðun leiði til þess að á því ári sem breytingin er gerð komi til frádráttar 10% arður vegna beggja áranna.

Til frekari skýringar skal eftirfarandi tilgreint:

1. Í árslok 1987 er hlutafé samkvæmt efnahagsreikningi kæranda kr. 6.200.000. Á skattframtali 1988 (tekjuári 1987) er arður færður til frádráttar tekjum, sbr. 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 kr. 620.000 (10% hámark).

2. Í árslok 1988 er hlutafé samkvæmt efnahagsreikningi kæranda kr. 18.600.000. Á skattframtali 1989 (tekjuári 1988) er arður færður til frádráttar kr. 3.100.000. Skattstjóri lækkar það réttilega í kr. 1.860.000 (10% hámark).

3. Í árslok 1989 er hlutafé samkvæmt efnahagsreikningi kæranda kr. 18.600.000. Á skattframtali 1990 (tekjuár 1989) er arður færður til frádráttar kr. 1.860.000 (10% hámark).

4. Loks skal þess getið hér til fróðleiks að í árslok 1990 er hlutafé samkvæmt efnahagsreikningi kæranda kr. 27.900.000. Á skattframtali 1991 (tekjuári 1990) er arður færður til frádráttar kr. 5.115.000. Hámark er 15% eða kr. 4.185.000.

Við athugun á framtalsgerð kæranda á undanförnum árum er ekki að sjá að um breytingar á uppgjörsaðferð varðandi arðsfrádrátt sé að ræða. Með tilliti til þess að kærandi er ekki í ársreikningi sínum árið 1988 og skattframtali 1989 að breyta um frádráttarreglu er gerð sú krafa að úrskurður skattstjóra í máli þessu verði staðfestur.“

Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, er kröfu kæranda hafnað í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja