Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1235/1979

Söluskattur 1978

Lög nr. 10/1960  

Söluskattur - Tilboðsverk

Tildrög málsins voru þau, að kærandi tók til frádráttar á söluskattsskýrslu fyrir septembermánuð árið 1978 kr. 1.227.462 vegna tveggja tilboðsverka að frádreginni söluskattsskyldri vélavinnu. Skattstjóri krafði kæranda um samninga vegna þessara verka, uppgjör þeirra, kostnaðarnótur og tímaskrift véla.

Samkvæmt framlagðri sundurliðun kæranda á verktilboðum skiptist tilboðsfjárhæð annars verksins kr. 1.235.981 svo: Tímaskrift vélar kr. 362.793, flutningur kr. 136.408, akstur kr. 83.808, verkstjórn kr. 103.220 og varð hagnaður kr. 549.752.

Hitt verkið að fjárhæð kr. 402.500 skiptist svo: Tímaskrift vélar kr. 116.352, akstur úr grunni kr. 172.500, akstur (milliferðir ) kr. 10.000 og varð hagnaður kr. 103.648. Verkþættir kæranda fólust skv. samningum í greftri.

Með því að vélavinna væri söluskattsskyld, taldi skattstjóri bera að telja heildargreiðslu fyrir slíka vinnu söluskattsskylda, enda þótt greiðsla væri önnur en kveðið væri á um í gjaldskrá Félags vinnuvélaeigenda. Þar væri einungis um lágmarkstaxta að ræða. Skattstjóri taldi á hinn bóginn, að greiðslur fyrir akstur og milliferðir í tilboðunum, samtals að fjárhæð kr. 402.716 væru ekki söluskattsskyldar.

Í samræmi við þetta ákvað skattstjóri að hækka söluskattsskylda veltu um kr. 824.74 6. Hækkun sölugjalds nam kr. 137.452 og viðurlög kr. 35.736.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að hækkun sölugjalds svo og Viðurlög yrðu niður felld með þeim rökum, að honum bæri eigi að greiða sölugjald af hagnaði af tilboðum sem þessum heldur einungis vegna vélavinnu og vélamanns svo sem hann hefði fram talið á söluskattsskýrslu. Þá mótmælti kærandi því sjónarmiði skattstjóra, að verkstjórnarþáttur í tilboðsverki kr. 103.220 væri söluskattsskyldur. Benti kærandi á, að hann hefði sem verktaki stjórnað vélinni og sparað sér einn starfsmann með því, þ.e. verkstjóra.

Ríkisskattstjóri gerði svofelldar kröfur í málinu:

„Aðalkrafa:

Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Fram er komið í málinu að vinna kæranda var fólgin í útleigu vélar og manns. Endurgjald fyrir slíka starfsemi er söluskattsskyld skv. almennum ákvæðum 1. mgr. 1. gr. söluskattslaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra og skýringarákvæði D-liðar 4. gr. laganna.

Til vara er fallist á að tímaskráning og einingarverð skv. sundurliðun kæranda verði grundvöllur söluskattsákvörðunar ef ríkisskattanefnd telur að ákvæði 1. tl. 1. mgr. 7. gr. söluskattslaga taki til svonefndrar „verkstjórnar“ kæranda á vinnustað, og verði heildarandvirði verkstjórnar gert upp með sama hætti og miðað við sama tímafjölda og vélavinnu.“

Ríkisskattanefnd féllst á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja