Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1330/1979

Söluskattur 1978

Lög nr. 10/1960, 4. gr.  

Söluskattur

Kærandi, sem rak verslun, útbjó brauðsamlokur og seldi í verslun sinni. Í söluskattsuppgjörum kæranda kom fram, að téðar samlokur voru taldar undanþegnar söluskatti. Skattstjóri áleit hins vegar, að vara þessi væri ekki undanþegin og lagði á kæranda viðbótarsöluskatt og viðurlög kr. 329.816 fyrir mánuðina nóvember og desember 1978. Í úrskurði skattstjóra sagði m.a.:

„Álit skattstofunnar er, að sala á smurðum samlokum (eigin framleiðsla og sala) falli undir ákv. f. liðar 4. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt, (sbr. smurt brauð á smurbrauðstofum) og því söluskattskyld. Hins vegar hafi aðilar, er selja slíka framleiðslu, heimild til að draga frá heildarveltu sinni áður en söluskattsskil eru gerð, sem samsvarar innkaupsverði þeirra matvara, sem fara til framleiðslunnar, sem undanþegin eru söluskatti skv. ákv. 2. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 316/1978 um söluskatt, sbr. ákv. 3. tl. 1. gr. sömu reglugerðar.“

Umboðsmaður kæranda mótmælti þessum úrskurði og krafðist þess, að álagningin yrði felld niður. Kærandi hefði ekki með höndum veitingastarfsemi og þar með ætti ekki við í tilviki kæranda að innheimta söluskatt af þessari vöru.

Ríkisskattanefnd staðfesti úrskurð skattstjóra að því er varðaði álagðan söluskatt með vísan til a-liðs 4. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, sbr. 3. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 316/1978, um söluskatt. Fallið var frá beitingu viðurlaga kr. 40. 670.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja